Ræktar jólastjörnur í ýmsum litaafbrigðum og líka örsmáar
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Birgir Steinn Birgisson, garðyrkjubóndi og pottaplöntuframleiðandi í Ficus ehf. Bröttuhlíð í Hveragerði, er öflugur ræktandi á jólastjörnum hérlendis. Hann hefur líka verið kraftmikill í að kynna íslenska pottaplöntuframleiðslu og átti hugmynd að átaki í þá veru sem hófst á síðastliðnu vori. Í dag eru einungis þrír garðyrkjubændur eftir á Íslandi sem eingöngu eða aðallega rækta pottaplöntur.
Birgir sagði í samtali við Bændablaðið að nú væri að renna upp árlegur tími jólastjörnunnar. Var afar fallegt að líta yfir gróðurhúsið hjá Birgi sem var fullt af jólastjörnum. Það voru ekki bara þessar hefðbundnu rauðu jólastjörnur sem allir þekkja, heldur líka hvítar, neonbleikar og mislitar sem Birgir hefur verið að prófa sig áfram með á íslenskum markaði. Hann segir jólastjörnur alls ekki dýr blóm og í raun hafi þær lækkað mikið í verði í hlutfalli við annað sem fólk er að kaupa.
Jólastjörnur hafa stórlækkað í verði miðað við hárklippingu
„Menn hafa sagt mér að fyrir um 20 til 30 árum hafi ein jólastjarna kostað jafn mikið og að láta klippa sig á hárgreiðslustofu. Nú kostar jólastjarnan um eða innan við 1.000 krónur en klippingin líklega um 5.000 til 6.000 krónur,“ segir Birgir, en víða mun klipping samt kosta talsvert meira.
„Sennilega er jólastjarnan bara orðin of ódýr. Hér á landi er trúlega verið að rækta um 20.000 jólastjörnur, þar af er ég með um 9.000 og síðan er það Flóra garðyrkjustöð í Hveragerði og Gróðrarstöðin Ártangi í Grímsnesi. Eitthvað lítils háttar er svo flutt inn.“
Með ýmis litaafbrigði í jólastjörnum
Birgir segist hafa verið að gera prófanir með aðra liti en rauðar jólastjörnur, eins og bleikar og hvítar.
„Ég var með smávegis af bleikum jólastjörnum á síðasta ári og sá að fólk virtist vera hrifið af þeim. Ég er að prófa þetta enn frekar núna. Ég var með í fyrra um 10% af hvítum jólastjörnum, um 4% af bleikum og um 86% af rauðum. Núna verð ég með 10% af bleikum og 10% af hvítum og um 80% af rauðum. Annars eru til mörg litaafbrigði í þessu.“
Líka míní-jólastjörnur
Það er líka ýmislegt fleira sem Birgir er að gera tilraunir með.
„Þá er ég búinn að vera að rækta míní-plöntur af jólastjörnum í nokkur ár.Venjulegar jólastjörnur taka talsvert pláss á borði og því langaði mig að prófa þetta. Hér er ég t.d. með hvítar, bleikar, rauðar og tvílitar. Til að ná þeim svona litlum meðhöndla ég þær öðruvísi. Þessar eiga að vera tilbúnar 1. desember.“
Gerir tilraun með háar jólastjörnur á næsta ári
„Maður er annars alltaf að fikta eitthvað og á næsta ári ætla ég að fara alveg í hina áttina og búa til háar jólastjörnur. Þær verða öðruvísi en fólk þekkir. Það kemur upp einn stofn í dálitla hæð og þá toppa ég hana svo hún fari að dreifa úr sér. Stofninn verður því hreinn en það kemur hvirfing efst. Ég hef ekki gert þetta áður og ég held að svona plöntur hafi heldur ekki verið hér á markaðnum. Þetta verður allt öðruvísi og getur verið skemmtilegt í skreytingar.“
Hyasintumarkaðurinn stöðugt að færast framar
Hyasintur, eða goðaliljur, eru líka vinsæl laukblóm um jólin og þar er Birgir líka á heimavelli.
„Markaðurinn fyrir hyasintur er alltaf að færast framar. Fyrir tíu til tuttugu árum miðaði maður við að vera tilbúinn með þær í sölu 10. desember. Nú verð ég að vera tilbúinn með þær í síðustu viku nóvember. Til að fá þær til að blómstra þurfa laukarnir fyrst að vera í kæli í tíu vikur, líkt og túlípanarnir, áður en maður tekur þá inn í hús. Eftir það eru hyasinturnar tilbúnar í sölu á tíu dögum.“
– Hvað kemur þú með mikið af hyasintum á markaðinn í ár?
„Ég er með eitthvað um 19 þúsund,“ segir Birgir.
Kominn með lífrænar varnir í blómaræktina
Birgir er líka farinn að leggja mikið upp úr heilnæmi ræktunarinnar.
„Nú er maður kominn með allt lífrænt, þótt maður sé bara í blómarækt. Það eru engin eiturefni notuð til að verjast ágangi sníkjudýra, heldur bara lífrænar varnir.“
Sýnir Birgir blaðamanni litla poka sem settir eru hér og þar í blómapottana og úr þeim skríða síðan örlitlar lirfur sem ráðast á „blóma-thrips“ og hvítar flugur sem geta verið mikill skaðvaldur í blómarækt. Þegar lirfurnar hafa lokið sér af við átið á sníkjudýrunum, þá éta þær hver aðra.“
Þetta blóma-thrips sem Birgir minntist á er hvimleitt skordýr í blómarækt af Frankliniella-ætt og er líka þekkt undir nafninu Western flower thrips.
Birgir segir að ef hann beitti eitri núna dræpust lífrænu varnirnar hans um leið. Eituráhrifin vara síðan lengi og getur hann þá ekki farið að nota lífrænar varnir aftur fyrir en allt að átta vikum liðnum. Þá drepur eitur sem kemst í plönturnar líka lífrænu varnirnar. Lesendur geta því rétt ímyndað sér hvernig staðan er þar sem stöðugt er beitt eiturefnum til að verjast sníkjudýrum. Slíkar plöntur geta vart talist heilnæmar fyrir fólk.
Gríðarleg samkeppni í pottaplöntunum
Birgir er með að jafnaði um tvö og hálft stöðugildi í garðyrkjustöðinni hér en fær aukamannskap á vorin og þá eru kannski sex þar að störfum. Hann er nú með um 1.800 fermetra undir þaki og er að gera breytingar á stöðinni til að geta aukið framleiðsluna í pottaplöntunum. Þar gætu tollaniðurfellingar þó haft veruleg áhrif.
„Samkeppnin er þegar gríðarlega hörð og mikið flutt inn,“ segir Birgir.
Samningar um orkuverð héldu ekki lengi
Varðandi orkumálin hitar Birgir stöðina upp með gufu og síðan er rafmagnsnotkunin stærsti þátturinn. Gjaldið fyrir gufuna er reiknað út miðað við fermetra í húsunum sem er verið að kynda, en ekki rúmmetra af keyptri gufu eins og tíðkast í heitavatninu. Þar sem erfitt er að mæla gufumagnið, þá greiðir Birgir sama verð allt árið.
Nú kaupir hann orkuna af Veitum sem eru í eigu Orkuveitu Reykjavíkur eftir að Hveragerðisbær seldi Veitum sína hitaveitu. Segir Birgir að salan á hitaveitunni hafi verið gerð með þeim skilyrðum að garðyrkjubændur í Hveragerði nytu áfram sömu kjara og þeir hefði áður haft. Það gilti þó ekki lengi.
„Svo kom efnahagshrunið. Ári seinna hækkaði orkuverðið til okkar um 40%,“ segir Birgir. „Það var bara hækkað og enginn spurður. Ekki gat ég skellt því út í verðlagið og hækkað blómin um 40%.“
Norskir ylræktarbændur farnir að brenna timbri í stað þess að nota raforku
Birgir segir að staðan í ylræktinni sé víða erfið á norðurslóðum vegna stöðugra hækkana á orkuverði. Vísaði hann til kollega síns í Noregi sem kynti stöðina áður með raforku. Eftir að Norðmenn fóru að selja raforku um sæstreng til ESB landa, hækkaði raforkuverðið svo mikið að hann réð ekki við það. Eina ráðið hjá honum til að halda áfram rekstri í framleiðslu pottablóma var að setja upp kyndistöð þar sem brennt er timbri, með tilheyrandi koltvísýringslosun. Framleiðsla á afskornum blómum hefur hins vegar alveg lagst af í Noregi.
Þetta er í raun sama staða og Hafberg Þórisson, sem rekur Lambhaga í Reykjavík, hefur verið að glíma við og greindi frá í síðasta Bændablaði. Hann hefur einmitt verið að íhuga að setja upp brennsluofn þar sem hann telur jarðhitavatnið vera orðið of dýrt.