Sælkerarölt er alla föstudaga í sumar fyrir gesti og gangandi
„Röltið gekk svo vel í fyrrasumar en þá fengum við um 300 manns í göngurnar þannig að við ákváðum að taka þráðinn aftur upp í sumar og bjóða upp á Sælkerarölt um Reykholt alla föstudaga í sumar klukkan 11.00. Gangan tekur um eina og hálfa klukkustund með stoppum og smakki á nokkrum stöðum,“ segir Knútur Rafn Ármann, einn af göngustjórum Sælkeragöngunnar í sumar.
Um 300 manns mættu í Sælkeraröltið síðasta sumar og reiknað er með að enn fleiri mæti í sumar.
Röltið hefst alla dagana við Mika, fjölskyldurekinn veitingastað þar sem gestir fá að smakka á heimagerðu konfekti frá Mika. Síðan
rekur gangan sig með fjölbreyttum fróðleik með viðkomu við hverinn í Reykholti þar sem Sigrún Erna býður upp á rúgbrauð bakað í hvernum.
Sigrún Erna að bjóða gestum upp á hverarúgbrauðið sitt.
Brauðið er borið fram með íslensku smjöri. Eftir rölt í smástund er stoppað í nýrri garðyrkjustöð sem heitir Daga, en þar fá gestir að kynnast starfsemi stöðvarinnar og smakka á nýjum íslenskum jarðarberjum, brómberjum og hindberjum. Síðasti stoppistaðurinn er Friðheimar þar sem sagt er frá starfsemi stöðvarinnar og boðið upp á smakk. „Fyrir þá sem ekki vita þá er Reykholt frábærlega staðsett, klukkustund frá höfuðborgarsvæðinu, á miðjum Gullna hringnum og stutt frá alls kyns náttúruperlum. Því er tilvalið að dvelja nokkrar nætur í Reykholti og drekka í sig sveitasæluna,“ segir Knútur Ármann.
Ásborg Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi Uppsveita Árnessýslu, lét sig ekki vanta í gönguna 11. júní en hún er mjög stolt og ánægð með frumkvæði íbúa í Reykholti að bjóða upp á Sælkeragöngur í allt sumar.