Selur vatnið út um allan heim
Icelandic Glacial, vatnið í vatnsverksmiðju Jóns Ólafssonar í Ölfusi, er einstakt náttúrulegt lindarvatn. Það er tekið úr uppsprettu lindarvatns í Ölfusi sem á uppruna sinn fyrir meira en 5.000 árum og er varið fyrir mengun með hraunbreiðum, sem er náttúrulegur varnarveggur náttúrunnar.
Lindin framleiðir vatn sem er svo hreint að engu er bætt út í vatnið eða tekið úr því. Vatnið frá Icelandic Glacial er þess vegna einstakt því það inniheldur lítið af steinefnum og sýrustigið er 8,4pH af náttúrunnar hendi.
Í mestu mögulegu framleiðslu fyrirtækisins er tekið sem samsvarar 1% af heildarvatnsstraumi Ölfus bergvatnslindarinnar, sem annars rynni til sjávar. Icelandic Water Holdings, eigandi vörumerkisins Icelandic Glacial, og Coca-Cola European Partners á Íslandi (Coca-Cola á Íslandi) skrifuðu nýlega undir áframhaldandi samstarfssamning um dreifingu vara „Icelandic Glacial“ hér á landi og nær samningurinn nú einnig yfir nýjar vörur „Icelandic Glacial“, sem verður dreift samhliða vörutegundum Coca-Cola á Íslandi.
„Icelandic Glacial er í miklum vexti á alþjóðavettvangi en heimamarkaðurinn er okkur ekki síður mikilvægur og erum við ánægð með áframhaldandi samstarf okkar við Coca-Cola á Íslandi. Það eru spennandi tímar fram undan en von er á nýjum vörum frá okkur á næstu mánuðum sem við hlökkum til að kynna,“ sagði Jón Ólafsson, stofnandi og stjórnarformaður Icelandic Glacial.