Sveitasæla Skagafjarðar
Landbúnaðarsýningin og bændahátíðin Sveitasælan verður haldin í Skagafirði þann 19. ágúst næstkomandi.
Hátíðin er nú endurvakin eftir þriggja ára dvala en hún er haldin af sveitarfélaginu Skagafirði, reiðhöllinni, Búnaðarsambandi Skagfirðinga og búgreinafélögum á svæðinu. Viðburðurinn fer fram í reiðhöllinni á Sauðárkróki. Bændur og áhugafólk um landbúnað gera sér þar glaðan dag, kynna starfsemi sína, handverk og vörur beint frá býli, fram fer kálfasýning, hrútaþukl og aðrar óvæntar uppákomur. Hátíðin verður með myndasamkeppni þar sem myndasmiðir eru beðnir um að sýna sína sveitasælu með því að tagga myndir af hátíðinni og verða vinningar í boði fyrir bestu myndirnar. Hægt er að nálgast allar frekari upplýsingar gegnum samfélagsmiðla Sveitasælunnar.