Tamdi naut til reiða
Gísli Matthías Sigurðsson, bóndi í Miðhúsum í Garði, virðist hafa verið kenjóttur og skemmtilegur maður sem bæði tamdi naut sem reiðskjóta og stofnaði útvarpsstöðina Eilífðina á Vífilsstöðum.
Gísli fæddist ári 1895 og því liðin 124 ár frá fæðingu hans. Gísli fæddist í Reykjavík en eftir að hann kynntist Ingibjörgu Þorgerði Guðmundsdóttur fluttist hann í Garðinn þaðan sem Ingibjörg var ættuð. Ingibjörg lést árið 1936 frá ellefu börnum. Fáeinum árum síðar sýktist Gísli af berklum og bjó að Vífilsstöðum í 36 ár.
Eins og besti hestur
Í viðtali sem birtist í Þjóðviljanum 26. september 1965 segir Gísli að hann hafi tamið nautið Geysi til reiða og fyrir plóg til að plægja garða. „Ég hafði hann fyrst með hesti og batt tauminn á tudda við aktygin og rak svo á eftir ef þurfti. Eftir nokkurn tíma gat ég teymt hann við hlið á hesti. Svo datt mér í hug hvernig hann brygðist við ef ég færi á bak honum. Hann var eins og bezti hestur, ég hefði getað riðið honum út í sjóinn. Hann var alveg sérstök skepna. Einu sinni sendi ég mann eftir tudda upp á tún og tók sá í horn honum, en tudda þótti við hann fyrir og hrinti honum svo hann féll. Ég hljóp af stað, dauðhræddur um manninn og kallaði til tudda og labbaði hann þá út í horn á girðingunni. Honum var illa við skegg á mönnum. Einu sinni kom mjög skeggjaður bóndi með beljur, en tuddi leit ekki við beljunni fyrr en hann hafði rekið skeggmanninn í burtu!
Hann var felldur 3ja og hálfs árs. Ég gat ekki horft á hann skotinn og felldi tár þegar ég heyrði skotið.“
Útvarpsstöðin Eilífðin
Að sögn Sigrúnar Guðmundsdóttir, barnabarns Gísla, reið Gísli nautinu meðal annars frá Garði til Keflavíkur og víða enda var Geysir einstaklega ljúfur gripur.
„Eftir að afi flutti á Vífilsstaði stofnaði hann útvarpsstöð sem fékk heitið Eilífðin og er líklega fyrsta einkarekna útvarpsstöðin á Íslandi og hann eyddi öllu sem hann átti til að spila lög og skemmta sjúklingum og starfsfólki þar.“