Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Þó ekki séu liðin nema ríflega 40 ár frá því berkladeildin á Kristnesi var lögð niður er saga sjúkdómsins mörgum fjarlæg. Það fylgdi því að hluta til nokkur útskúfun að fá berkla.
Þó ekki séu liðin nema ríflega 40 ár frá því berkladeildin á Kristnesi var lögð niður er saga sjúkdómsins mörgum fjarlæg. Það fylgdi því að hluta til nokkur útskúfun að fá berkla.
Mynd / MÞÞ
Líf og starf 22. ágúst 2019

Tímabært að segja söguna sem þöggun hefur ríkt um í áraraðir

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir

„Þessi saga tengist þúsundum fjölskyldna hér á landi og hefur ekki áður verið sögð. Hér var mikill fjöldi fólks og þeir voru margir sem töpuðu stríðinu,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, sem flutti ávarp við formlega opnun Hælisins, seturs um sögu berklanna, sem staðsett er á Kristnesi í Eyjafirði í liðinni viku. 

Ólafur Ragnar gat þess í ræðu sinni að hann hefði verið í fleiri viðtölum en tölu væri á komið, en aldrei nokkurn tíma rætt um fjölskyldusögu sína, þ.e. að móðir hans greindist með berkla og dvaldi á Kristnesspítala og einnig Vífilsstöðum. Þögnin ein hefði ríkt um berklana.

Ólafur Ragnar var þriggja ára gamall þegar móðir hans var flutt á Vífilsstaði og fór hann þá í fóstur til afa síns og ömmu á Þingeyri en fjölskyldan bjó á Ísafirði. Lýsti hann því að faðir hans hefði ekki komist að heimsækja konu sína þegar hún var send norður til Akureyrar í höggningu því engar samgöngur voru í boði. Eftir höggninguna dvaldist hún um tíma á Kristneshæli til að jafna sig eftir aðgerðina. Móðir hans stóð í sínum veikindum um 7 ára skeið og sá Ólafur Ragnar hana fjórum, fimm sinnum á þeim tíma. Hafði hann eftir konu sem með henni var á Vífilsstöðum að hún hefði oft talað um drenginn sinn þegar þær tóku tal saman á kvöldin. Nefndi Ólafur Ragnar að erfitt væri að gera sér í hugarlund líðan þess fólks sem fékk berkla, það glímdi við líkamleg veikindi, hafði lítil samskipti við ástvini sína og horfði upp á samsjúklinga falla einn af öðrum. Og alltumlykjandi óvissan um hver yrði næstur. Andleg líðan hefði því eflaust ekki verið upp á marga fiska frekar en sú líkamlega.

Ólafur Ragnar þakkaði Maríu Pálsdóttur, sem stóð fyrir því að setrið er nú orðið að veruleika, fyrir kraftinn og það áræði sem hún sýndi með frumkvæði sínu. 

Margir voru viðstaddir þegar Hælið var opnað á Kristnesi í liðinni viku.

Mögnuð viðbrögð

„Ég var virkilega ánægð með daginn, það kom mikill fjöldi fólks til okkar sem sýnir að áhuginn fyrir þessu er greinilega fyrir hendi. Þetta var alveg yndislegt allt saman og meira að segja sólin braust aðeins fram úr skýjunum, þannig að ég er alsæl með þetta allt saman,“ segir María Pálsdóttir hjá Hælinu. „Það er greinilegt að sýningin hefur mikið aðdráttarafl, berklar tengjast svo mörgum og fólk kemur hér í eins konar pílagrímsför. Ég er virkilega ánægð með viðbrögðin, þau hafa verið hreint úr sagt mögnuð.“

5.900 manns létust úr berklum

Berklar, stundum nefndir hvíti dauðinn, er smitandi bakteríusjúkdómur sem geisaði hér á landi snemma á liðinni öld. Dánarorskaskráning hófst hér á landi árið 1911 og fram til ársins 1970 létust um það bil 5.900 manns af völdum sjúkdómsins á Íslandi. Lyf voru engin til við sjúkdómnum fyrr en um miðja öld og voru einu úrræðin í boði að einangra þá sem smituðust á hælum, veita þeim gott húsaskjól, hollan mat, hvíld og hæfilega hreyfingu. Meðferðarúrræði voru aðgerðir eins og loftbrjóst og höggning sem á stundum virkuðu með góðum árangri.

Þó ekki séu liðin nema ríflega 40 ár frá því berkladeildin á Kristnesi var lögð niður hefur saga berklanna nánast týnst og margir hafa vart heyrt á þá minnst, jafnvel þótt ættingjar þeirra hafi veikst. Það fylgdi því að hluta til nokkur útskúfun að fá berkla, erfitt gat reynst fyrir fyrrverandi sjúklinga að fá vinnu eða leigt húsnæði, óttinn við smit var allsráðandi í samfélaginu. 

Unnið að leikverki um berklana

María Pálsdóttir.

„Mér þótti tímabært að segja þessa sögu og heiðra þannig minningu þeirra fjölmörgu sem létust úr sjúkdómnum. Ég hef fengið ákaflega blíðar og fallegar móttökur,“ segir María sem er vissulega ánægð með þau tímamót að setrið hefur nú formlega verið opnað. Hún segir að nú þegar setrið hafi tekið til starfa taki margvísleg verkefni við. „Þetta er bara rétt að byrja núna og heilmikið fram undan.“ Gera megi ráð fyrir vexti á komandi árum og að setrið vaxi og eflist, til greina komi að sækja fram á alþjóðlegum vettvangi, en Hælið er eina safn sinnar tegundar sem um er vitað. Það sé því möguleiki að koma því á kortið á heimsvísu þegar kemur að rannsóknum sem tengjast sjúkdómnum, ráðstefnum og öðru slíku.

Þá nefnir María að hún hafi hlotið styrk úr Sóknaráætlun Norðurlands eystra fyrir handritaskrif að leiksýningu um berkla sem verði sérstaklega skrifuð inn í sýningarrýmið. Villi vandræðaskáld situr við það þessa dagana að skrifa verkið. Vonandi verður hægt að setja verkið upp á næsta ári, það væri draumur. 

18 myndir:

Skylt efni: Kristnes | berklar

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...