Tómatar farnir að streyma á markað úr nýja gróðurhúsinu í Friðheimum
Fyrstu tómatarnir sem ræktaðir voru í nýju gróðurhúsi Friðheima í Reykholti voru tíndir af grein þann 20. janúar síðastliðinn. Það gerðist aðeins átta mánuðum eftir að fyrsta skóflustunga var tekin að þessari 5.600 fermetra byggingu.
Knútur Rafn Ármann á og rekur gróðrarstöðina Friðheima ásamt eiginkonu sinni, Helenu Hermundardóttir, og börnum þeirra fimm. Hann segir óhætt að segja að verkinu hafi miðað vel.
Nutu aðstoðar Landsbankans við framkvæmd verkefnisins
„Landsbankinn, sem er okkar bakhjarl og viðskiptabanki, hefur staðið með okkur í þessu stóra verkefni, og því var við hæfi að fá þær nöfnur, Lilju Samúelsdóttur, viðskiptastjóra fyrirtækjamiðstöðvar, og Lilju Einarsdóttur bankastjóra til að tína fyrstu tómatana.
Mikill skortur er á íslenskum tómötum þessa stundina og því er uppskeran kærkomin viðbót inn á markaðinn og ættu því neytendur að geta gengið að íslenskum tómötum í verslunum landsins.“
Nýju gróðurhúsin eru 5.600 fermetrar að stærð með pökkun og vörumóttöku og afhendingaraðstöðu sem og fullbúnu uppeldishúsi. Knútur segir að þarna verði hægt að framleiða um 100 kg á fermetra á ári. Ræktunarrýmin í þessari byggingu eru um 4.600 fermetrar, þannig að framleiðsla á tómötum gæti verið nærri 500 tonnum á ári miðað við venjulega tómata. Friðheimar hafa líka verið þekktir fyrir framleiðslu á hinum bragðgóðu piccolotómötum. Knútur segir að uppskera af slíkum tómötum sé þó ekki nema um þriðjungur af því sem hægt er að ná með venjulegum tegundum af sama flatarmáli.
Dóttirin Dórótea og foreldrarnir Knútur Rafn Ármann og Helena Hermundardóttir í nýja húsinu.
Stoltur af auknu framboði á markaðnum
„Við förum í að færa svolítið til á milli húsa og aukningin mun verða í ræktun á hefðbundnum tómötum, piccolotómötum og plómutómötum. Til að byrja með mun aukningin þó öll vera í hefðbundnum tómötum, enda var orðin mikil vöntun á slíkum tómötum inn á markaðinn og skortur yfir vetrartímann. Sem bóndi var orðið erfitt að horfa upp það að geta ekki sinnt markaðnum og orðið við óskum neytenda. Ég er því bæði glaður og stoltur að hafa geta farið út í þessa stækkun.“
Þar hafa hendur staði fram úr ermum
Margt hefur drifið á dagana síðan búfræðingurinn Knútur og garðyrkjufræðingurinn Helena keyptu Friðheima árið 1995, ákveðin í að flétta saman þær starfsgreinar sem þau höfðu menntað sig í; hestamennsku og garðyrkju. Það hefur allt saman gengið upp og framkvæmt af myndarskap sem tekið hefur verið eftir langt út fyrir landsteinana.
Í uppbyggingu í aldarfjórðung
Á árunum 1995–2001 byggðu þau 1.174 fermetra gróðurhús og voru í hefðbundinni ræktun, gerðu upp eldri hús og nýttu til ræktunar.
Á árunum 2002–2006 tóku þau þá ákvörðun að fara í heilsársræktun í tómötum, settu upp lýsingu í eldri hús og byggðu nýtt 1.000 fermetra gróðurhús með fullri lýsingu.
Árin 2007–2013 var svo komið að uppbyggingu á hestamiðstöð og ferðaþjónustu í Friðheimum.
Árið 2011 var garðyrkjustöðin stækkuð um 60% og gestastofa byggð upp í gróðurhúsunum.
Veturinn 2012–2013 var unnið að þróun vörulínu og matarminjagripa úr tómötum og gúrkum.
Árið 2013 var Litla tómatbúðin byggð við gestastofuna. Þar eru matarminjagripirnir seldir og haustið 2014 var síðan sett í loftið vefverslun þar sem hægt er að kaupa og fá sent góðgætið úr Friðheimum.
Árin 2015 2016 hækkuðu þau elstu gróðurhúsin um 1,5 metra til að gera þau samkeppnihæfari í lýsgarræktun.
Í júlí árið 2017 var opnað nýtt og fullkomið aðgerðareldhús í Friðheimum í nýbyggingu sem einnig hýsir skrifstofur Friðheima.
Árið 2018 var byggð véla og verkstæðis skemma.
Vorið 2020 var hafist handa við byggingu á nýju 5.600 fermetra gróðurhúsbyggingu ásamt vörumóttöku og vinnuaðstöðu.
Auk bygginga fyrir framleiðsluna hafa þau hjón þurft að kaupa og byggja húsnæði fyrir starfsmenn. Á árinu 2019 byggðu þau t.d. fjórar íbúðir á Reykholti og eiga nú 16 íbúðir á svæðinu fyrir sitt starfsfólk.
Hafa sérhæft sig í tómataræktinni
Knútur segir að frá upphafi hafi þau að mestu haldið sig við ræktun á tómötum.
„Við höfum þó líka ræktað gúrkur og paprikur og vorum m.a. með gúrkur inn á markaðinn í fyrrasumar. Samt höfum við sérhæft okkur í ræktun á tómötum og viljum halda því áfram.
Í byrjun vorum við með hugmyndir um að útvíkka tómataflóruna og höfum alla tíð verið dugleg að koma með nýjungar. Enda er alltaf gaman að vera með nýjar vörur og vera fersk í hugsun. Þannig höfum við meðal annars framleitt í litlu magni heirloom-tómata sem hafa þó mest verið fyrir veitingastaðinn hjá okkur.“
Bíða eftir að COVID linni
Knútur segir að nú bíði allir eftir því með krosslagða fingur að lokið verði við að bólusetja þjóðina svo lífið geti á ný hafið sinn vanagang. Fyrir COVID-19 faraldurinn voru þau með í vinnu um 50 manns yfir vetrartímann og um 60 yfir sumarið.
Hann segir að síðustu árin hafi þau lagt aukna áherslu á að gera vel við sitt starfsfólk og búa vel að því. Sem dæmi þá settu þau upp líkamsræktar- og frístundaaðstöðu fyrir starfsfólkið. Þannig hafi þeim auðnast að halda vel í sína lykilstarfsmenn sem hafa komið sér vel fyrir í Reykholti. Friðheimabændur eru því tilbúnir til að taka til hendinni þegar starfsemin kemst á fullan snúning í þjóðfélaginu á nýjan leik.
„Hjartað í fyrirtækinu er starfsfólkið okkar og það skiptir okkur gríðarlega miklu máli að það vilji vera sem lengst með okkur,“ segir Knútur.