Svissneskur marengs og íslenskar skyrkleinur
Höfundur: Bjarni Gunnar Kristinsson
Girnilegri verða þeir varla eftirréttirnir en þessir litlu marengstoppar sem dýft er í súkkulaði.
Hér er líka boðið upp á rammíslenskar skyrkleinur sem eru orðnar víðfrægar og koma úr smiðju Smurstöðvarinnar í Hörpu.
Svissneskur marengs hjúpaður í súkkulaði
- 210 g eggjahvítur
- 310 g flórsykur
- 200 g súkkulaði að eigin vali
- Súkkulaðiperlur til skrauts
Setjið eggjahvítu með flórsykri í skál úr ryðfríu stáli.
Settu skálina yfir pott með heitu vatni (55 til 60 gráður) og þeytið þar til hún þykknar.
Þeytið í hrærivél eða með rafmagnsþeytara þar til áferðin á marengsinum er orðin góð. Setjið í poka með um 15 millimetra stút í þvermál og sprautið í toppa á smjörpappír.
Bakið í ofni við 100 gráður í tvær klukkustundir.
Húðið marengs með bræddu súkkulaði og stráið skrautkúlum yfir til skrauts (má sleppa).
Njótið svona eða framreiðið með ís.
Skyrkleinur
- 4 egg
- 1½ bolli sykur
- 150 g smjör
- 1½ bolli súrmjólk eða skyr
- 1½ bolli mjólk
- ½ tsk. Salt
- 1½ tsk. kardemommur
- 2–3 tsk. vanilludropar
- 4 tsk. lyftiduft
- ½ tsk. hjartarsalt
- ½ tsk. sódaduft.
- 1–1,2 kg hveiti eftir þörfum
Aðferð
Egg og sykur þeytt saman Bræddu smjöri bætt saman við.
Þá er skyri (eða súrmjólk) bætt við og mjólk, salti, kardemommum og vanilludropum einnig.
Svo er lyftidufti, hjartarsalti og sódadufti bætt saman við og svo er hveitinu hrært saman við þangað til réttri þykkt á deiginu er náð.
Ábending til þeirra sem eru að steikja kleinur í fyrsta sinn:
Fyrst þegar ég bakaði þessa uppskrift þá byrjaði ég með deigið aðeins of þunnt og lenti í vandræðum en það er um að gera að setja bara nógu mikið hveiti til að deigið klessist ekki og fletja það ekki of þunnt út.
Athuga líka að hræra það ekki of mikið eftir að hveitið er sett í, svo að kleinurnar verði ekki of seigar.
Steikið í meðalheitri olíu og borðið helst strax. Deigið geymist í frysti og má steikja eftir hendinni.