Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
... hamast og djöflast við heykvíslina ...
Menning 6. september 2023

... hamast og djöflast við heykvíslina ...

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Gyrði Elíassyni.

Gyrðir Elíasson. Mynd / Johannes Jansson

Gyrðir er Austfirðingur að ætt og uppruna, fæddur árið 1961 og ólst upp á Sauðárkróki en er nú búsettur í Garði. Gyrðir er virtur og mikilvirkur rithöfundur sem hefur sent frá sér tugi verka; smásögur, ljóð, skáldsögur, ritgerðir og sagna- og ljóðaþýðingar.

Hann hefur hlotið ýmis verðlaun fyrir ritstörf sín, m.a. Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, Íslensku bókmenntaverðlaunin og Íslensku þýðingarverðlaunin. Verk Gyrðis hafa verið þýdd og gefin út á fjölda tungumála og hann sem dæmi verið tilnefndur til bæði frönsku Jean Monnet- og Prix Médicis verðlaunanna.

Heyskapur

Notalegt að liggja á heyvagni frænda og hossast á hlassinu eftir djúpum moldartroðningi áleiðis til hlöðunnar. Við komum ofan af túni sem var uppundir fjallinu, og þar hafði ég staðið með hrífu ásamt frænku. Síðan settumst við í teiginn með mjólkurflösku og kaffiflöskuna góðu í ullarsokknum, og í fáðum blikkstauk sem upphaflega var fagurmálaður liljum vallarins, voru kleinur og vöfflur með rabarbarasultu. Hundurinn lá lafmóður við fætur okkar og beið þess að fá bita. Ég henti stundum í hann kleinu, en frænka sagði: „Hann fær nóg, hundræfillinn, þegar hann er heima.“

Núna lá ég á hlassinu, heyrði glamrið í dráttarvélarbeislinu og vonaði að pinninn hrykki ekki upp úr, því ekki vildi ég vera á vagninum ef hann losnaði aftan úr vélinni. Það var sólskin og næstum logn og himinninn blárri en timburloftið í kirkjunni á Moldarstöðum.

Frændi minn í ullarnærfötum þrátt fyrir hitann, alveg hreint að springa en lét einsog ekkert væri, og ég vissi að hann mundi hamast og djöflast við heykvíslina og sleppa kannski naumlega við að stinga gat á svörtu slönguskóna sína. Ég hafði litla kvísl og reyndi að hamast líka, en honum þótti ég alltaf heldur linur til verka.

„Hvað er þetta drengur,“ sagði hann oft. „Geturðu ekkert?“

Við vorum komnir að hliðinu efst í heimatúninu og það glampaði á hlöðuþakið tilsýndar. Ég beið þar til traktorinn stöðvaðist alveg, þá stökk ég ofan af ækinu og opnaði hliðið með tilþrifum, hneigði mig djúpt með handsveiflu fyrir frænda um leið og hann ók brosandi í gegn.

Inn um þetta hlið færi ég aftur um kvöldið, með kýrnar og dökkan flugnasveiminn.

Úr smásagnasafninu Kvöld í ljósturninum e. Gyrði Elíasson. Útg. Mál og menning 1995.

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...