Benedikt búálfur
Leikfélag Sauðárkróks hefur skemmt sér við það undanfarið að setja upp sýninguna um hann Benedikt búálf sem er nú kunnugur afar mörgum.
Um er að ræða einn allra þekktasta barnasöngleik þjóðarinnar og skemmtilegt ævintýri eftir Ólaf Gunnar Guðlaugsson með grípandi lögum og tónlist eftir Þorvald Bjarna Þorvaldsson.Var sýningin fyrst sett upp á Íslandi árið 2002 í leikstjórn Gunnars Gunnsteinssonar, en síðan margoft verið sett upp úti um allt land, þar á meðal hjá Leikfélagi Akureyrar. Nú er semsé komið að því að Leikfélag Sauðárkróks takist á við þetta stóra verkefni og hafa þau verið síðasta mánuðinn að æfa og undirbúa sýningar undir stjórn Gunnars Björns Guðmundssonar leikstjóra. Þess má geta að Gunnar er margreyndur leikstjóri með yfir 30 leiksýningar, 4 áramótaskaup og kvikmyndir eins og Astrópíu og Ömmu Hófí á bakinu.
Hefst sagan á því að búálfurinn uppátækjasami ákveður að fara í bað og birtist henni Dídí mannabarni tandurhreinn, með handklæði um sig miðjan. Enda búálfar aðeins sýnilegir mannabörnum þegar þeir eru blautir!
Örlög þeirra eru svo hins vegar þeim ósköpum gædd að þegar þeir verða mannabörnum sýnilegir, þá ráða mannabörnin hvað verður um þá. Benedikt og Dídi verða góðir vinir og lenda í miklum ævintýrum og mikilli hættu í Álfheimum, þó allt fari vel að lokum.
Alls taka fjórtán leikarar þátt í sýningunni að þessu sinni, ásamt ótal aðilum sem eru á bakvið tjöldin.
Frumsýning verður föstudaginn 13. október í félagsheimilinu Bifröst á Sauðárkróki. Miðasala er á tix.is og einnig er hægt að panta miða í síma 8499434.
Áætlaðar sýningar eru tíu talsins út október en eins og er fara einungis sex sýningar í sölu strax.