Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Fréttir 1. júlí 2020
Aðkoma rekstrarfólks er lykill að velgengni
Höfundur: smh
Í formála kemur fram að um 60–70 slík fyrirtæki hafi verið stofnuð hér á landi á síðustu tíu árum. Í tengslum við úttektina voru tekin viðtöl við 14 íslenska matarfrumkvöðla sem hafa stofnað sín fyrirtæki á síðustu tíu árum um hvernig stjórnkerfið geti betur hlúð að slíkum vaxtarsprotum.
Raunin, samkvæmt skýrslunni, virðist sú að reynsla úr viðskiptum nýtist vel í upphafi. Hún eykur líkur á að hugað sé að lykilþáttum eins og mögulega framlegð vöru, stærð og áhuga markaðar, samkeppnisstöðu við sambærilegar vörur erlendis og tengsl við fjárfesta. Með aðkomu fjárfesta virðist árleg meðal veltuaukning, sem hlutfall af fyrsta árs veltu, verða rúmlega tvöfalt meiri en hjá öðrum.
Mikilvægi matarsmiðja
Í skýrslunni, sem heitir Lærum af reynslunni, kemur fram að margir matarfrumkvöðlar stíga sín fyrstu skref í matarsmiðjum þar sem þeir geta notað aðstöðu til að prófa framleiðslu sína. „Að færast úr matarsmiðjum yfir í eigin rekstur á fullmótuðu framleiðslueldhúsi er afar stórt skref fyrir frumkvöðla. Sameiginlegt atvinnueldhús, -geymslur og -dreifing geta verið mikilvæg millilending fyrir matarfrumkvöðla sem vinna á heimamarkaði. Varðandi útflutning er samstarf sumpart snúnara þar sem þessi hópur er afar fjölbreyttur en þó liggja ýmis tækifæri í nánara samstarfi. […] Smæð markaðarins gerir það að verkum að fyrirtæki eiga erfitt með að skala upp framleiðslu og bæta framlegð og horfa því til útflutnings. Þá tekur við strembið tímabil þar sem innkoma sérfræðiþekkingar á mörkuðum, aukið samstarf og skilvirk handleiðsla skiptir máli,“ segir í skýrslunni.
Þörf á ýmsum ívilnunum
Í lok skýrslunnar eru dregin fram tíu atriði sem talin eru geta bætt stöðu minni matvælafyrirtækja. Mælt er með því meðal annars að skoðað verði að auka undanþágur nýsköpunarfyrirtækja til að greiða opinber gjöld um einhvern tíma – ekki síst gjöld tengd starfsfólki. Eftirlitsiðnaðurinn er talinn mikilvægur en þar skorti gegnsæi. Samstarf þurfi að auka milli iðnaðar og eftirlitsstofnana og setja skýrari vinnureglur. Einnig er bent á að skoða beri hvernig hægt sé að einfalda stofnun matvælafyrirtækja hér á landi, sem talið er vera umtalsvert flóknara hér en í mörgum samkeppnislöndum.
Þá er talin þörf á að vekja áhuga fjárfesta á slíkum fyrirtækjum og skoða möguleika á að beita skattalegum aðgerðum til þess.
Einkenni frumkvöðla sem hafa náð góðum árangri
Markmiðið með viðtölunum var að fá fram viðhorf viðmælenda til að geta dregið lærdóm af rekstrar- og fjármögnunarumhverfi matarfrumkvöðla, samkeppnisumhverfi þeirra og reyna að fanga einkenni þeirra frumkvöðlafyrirtækja sem hafa náð góðum árangri.
Feed the Viking. Friðrik Guðjónsson og Ari Karlsson með Lamb Jerky. Mynd / smh
Tekin voru viðtöl við eftirfarandi matarfrumkvöðla:
Eylíf
Ólöf Rún Tryggvadóttir stofnaði Eylíf árið 2018. Eylíf hefur þróað vörulínu, heilsu- og húðvörur úr íslenskum hráefnum, þörungum, sæbjúgum, kollageni, íslenskum jurtum, kísil og ensímum.
Feed the Viking
Fyrirtækið var stofnað sumarið 2016. Feed the Viking þróar, framleiðir og selur marineraðar og þurrkaðar matvörur, kjötafurðir úr lambi og nauti – svokallað Jerky – og harðfisk úr íslenskum fiski.
Foss Distillery
Fyrirtækið var stofnað 2010. Foss Distillery er vínframleiðandi og er fyrirtækið þekktast fyrir vörurnar Björk og Birkir sem er snafs og líkjör með íslensku birki.
Geosilica
Fyrirtækið var stofnað 2012. Uppistaðan í vörum fyrirtækisins er fæðubótarefni sem inniheldur að mestu jarðhitakísil og hreint vatn. Vörurnar eru unnar úr heitu jarðhitavatni frá Hellisheiðarvirkjun.
GOOD GOOD
Fyrirtækið var stofnað árið 2015. Stofnendurnir keyptu fyrirtæki sem var sætuefnafyrirtæki og sérhæfði sig í að búa til stevíudropa. Ákveðið var að breyta fyrirtækinu og leggja áherslu á sykurlausar smyrjur og nafninu var breytt í GOOD GOOD. Markmiðið var að búa til almennilegar og góðar sykurlausar vörur í ljósi þess hvað sykursýki 2 var orðið mikið vandamál.
Huxandi
Fyrirtækið Huxandi varð til í nóvember 2018. Það framleiðir og selur mjólkursýrugerjað og gerilsneytt súrkál.
Jurt
Fyrirtækið Jurt var sett á stofn árið 2015. Athyglin beindist fljótt að tækifærum í að nýta orkuauðlindir landsins til þess að rækta jurtir til útflutnings.
Korngrís
Sögu fyrirtækisins er hægt að rekja til ársins 1978 er hjónin María Guðný Guðnadóttir og Hörður Harðarson byrja svínarækt í Laxárdal í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Fyrirtækið Korngrís er í dag eiginlega 3 fyrirtæki undir einum hatti Korngrís, Pizzavagninn Korngrís og Grís og Flesk ehf. Eitt fyrirtæki er að rækta fóður fyrir svín, annað er með kjötvinnslu og þriðja rekur pizzastaðinn Pizzavagninn.
Lava Cheese
Fyrirtækið heitir í raun Snakk kompaníið, en er betur þekkt undir vörumerkinu Lava Cheese. Fyrirtækið var stofnað árið 2017. Hugmyndin að fyrirtækinu kviknaði þegar stofnendurnir voru að gæða sér á grillaðri samloku. Varan sem fyrirtækið er að selja er búin til úr osti, snakk sem er gert til þess að bragðast eins og stökki osturinn á grillinu.
Margildi
Fyrirtækið var stofnað árið 2014, en stofnendur fóru að spá í verkefnið einu ári fyrr.
Hugmyndin gekk út á að framleiða íslenskt lýsi, úr hráefnum sem höfðu ekki verið nýtt fyrr.
Móðir Jörð
Fyrirtækið Móðir Jörð er í lífrænni ræktun og ræktar og framleiðir heilsu- og sælkeravörur úr plönturíkinu. Móðir Jörð var formlega stofnað árið 2010 og þá var farið í meiri fullvinnslu vara og svo kom vörulína.
Omnom
Fyrirtækið var stofnað og hóf starfsemi 2. nóvember 2013. Omnom er framleiðandi á gæðasúkkulaði sem framleitt er frá grunni úr kakóbaunum sem eru í dag keyptar frá þrem löndum, Tansaníu, Perú og Madagaskar.
Pure Natura
Fyrirtækið er stofnað árið 2015. Varan sem fyrirtækið selur eru vítamín sem eru unnin úr raunverulegum mat, hágæða fæðuunnin bætiefni. Aukaafurðir eða hliðarafurðir úr sauðfjárrækt eru nýttar í framleiðsluna í bland við villtar íslenskar jurtir. Þannig blandar fyrirtækið saman hómópatíu, grasalækningum og næringarfræði.
Saltverk
Fyrirtækið sem var stofnað árið 2012 framleiðir sjávarsalt og notar til þess jarðhita. Saltverk er í raun og veru að eima sjó á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Varan er framleidd á sjálfbæran hátt.
Heimild: Lærum af reynslunni - staða og horfur í rekstri frumkvöðlafyrirtækja á sviði matvæla og heilsuefna á Íslandi