Díoxín-menguð landnámshænuegg
Matvælastofnun varar við neyslu á eggjum frá Landnámseggjum ehf. í Hrísey. Fyrirtækið hefur með aðstoð Matvælastofnunar innkallað allar lotur í varúðarskyni af eggjum vegna þess að eiturefnið díoxín hefur mælst yfir leyfilegum mörkum í þeim.
Matvælastofnun biður fólk sem hefur keypt slík egg að neyta þeirra ekki heldur skila þeim þangað sem þau voru keypt, gegn fullri endurgreiðslu.
Á Facebook-síðu Landnámseggja segir að ástæða þessa sé líklega mengun úr jarðvegi vegna eldsvoða sem varð í Hrísey síðastliðið vor. „Hænurnar okkar hafa nú verið inni frá miðjum október og er von okkar að gildi sýna sem tekin voru 26. nóvember hafi lækkað en þeirra niðustöðu er að vænta í kringum 10. desember nk.,“ segir ennfremur.