Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Aðstæður og mögulegt útlit vindlundar Hrútmúlavirkjunar, úr skýrslu Eflu frá 2020 fyrir Gunnbjörn ehf.
Aðstæður og mögulegt útlit vindlundar Hrútmúlavirkjunar, úr skýrslu Eflu frá 2020 fyrir Gunnbjörn ehf.
Mynd / Efla
Fréttir 5. júní 2024

Ekki á dagskrá að skipuleggja fleiri orkumannvirki

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Engar virkjanir verða samþykktar á skipulag hjá Skeiða- og Gnúpverjahreppi fyrr en stjórnvöld setja lagalega umgerð um vindorku og skýra stefnu um staðarval.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps stendur föst á þeirri ákvörðun sinni frá því í fyrra að hætta skipulagningu á orkumannvirkjum, þar sem enginn ávinningur sé af slíku fyrir nærsamfélagið. Mikil umræða hefur skapast bæði á Alþingi og í þjóðfélaginu um að tryggja þurfi nærumhverfinu sanngjarnan ávinning af orkuframleiðslu.

Haraldur Þór Jónsson

„Þessi ákvörðun stendur óbreytt því þrátt fyrir mikla umræðu hefur ekkert breyst,“ segir Haraldur Þór Jónsson, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps. „Á meðan að lagaumgjörðin er eins og hún er, þá er ekki á dagskrá að setja frekari virkjanir í skipulagið hjá okkur.“

Hugmynd er meðal annars um vindorkugarð á jörðinni Skáldabúðum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Hrútmúlavirkjun, með allt að 25 vindmyllum og 85 MW framleiðslugetu. Hún er nú til umfjöllunar hjá verkefnastjórn rammaáætlunar og óafgreidd.

Boltinn hjá stjórnvöldum

Jörðin Skáldabúðir er í eigu fyrirtækisins Gunnbjörns ehf. en wpd Ísland ehf., dótturfyrirtæki þýska orkufyrirtækisins wpd Group, hyggst reisa garðinn. Héldu þeir aðilar kynningu á fyrirhugaðri framkvæmd seint á síðasta ári í félagsheimilinu Árnesi. Ýmsir jarðeigendur í nágrenni Skáldabúða hafa mótmælt áformunum harðlega.

„Það sem er svo sérstakt í þessu öllu saman er að enn er ekki komin lagaumgjörð um vindorkuna,“ segir Haraldur. „Það liggur jú fyrir að vindorkuver yfir 10 MW falla undir rammaáætlun en það er ekki búið að marka stefnu í þessum málum. Okkur finnst sú staða sérstök að vera í dag með hátt í 50 vindorkukosti í umfjöllun í rammaáætlun en það liggur hvorki fyrir löggjöf né skýr stefna um staðarval. Ég held að enginn Íslendingur vilji að vindorkugarðar verði byggðir úti um allar koppagrundir, þá væri verið að fórna mun meiri hagsmunum fyrir minni.“ Haraldur segir alla umræðu um hvort erlendir aðilar eigi að fá að byggja upp vindorkuver, til að flytja orkuna hugsanlega úr landi í formi t.d. rafeldsneytis, vera eftir.

„Svo sitjum við sveitarfélögin með afleiðingar þess að skipuleggja vindorkugarða gegn vilja íbúanna,“ heldur hann áfram. „Það eru jafnvel vindorkukostir í rammaáætlun sem hafa ekki verið kynntir fyrir viðkomandi sveitarfélagi, landeigendum eða nágrönnum. Við teljum að það verði að klára lagalega umgjörð og skýra stefnumörkun. Svo megi fara af stað. Við eigum síðan eftir að sjá hvort ný vindorkulög fara í gegnum þingið.“

Harður ágreiningur um Búrfellslund

Skeiða- og Gnúpverjahreppur hefur jafnframt staðið í ströngu vegna Búrfellslundar sem Landsvirkjun hyggst reisa. Sá vindorkugarður var afgreiddur í rammaáætlun 2015, með uppsett afl upp á 200 MW og mismunandi útfærslur. Í þeim eru vindmyllur bæði í Rangárþingi ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppi en ein útfærslan einungis í Rangárþingi ytra.

„Afstaða verkefnastjórnarinnar árið 2015 var sú að setja ætti Búrfellslund í biðflokk, síðan endurvann Landsvirkjun vindorku- garðinn og hann var minnkaður niður í 120 MW og að tillögu Landsvirkjunar einungis inni í Rangárþingi ytra,“ útskýrir Haraldur.

„Þrátt fyrir það var afgreiðsla verkefnastjórnar rammaáætlunar árið 2020 sú, að sökum þess hversu mikið vægi ferðaþjónustu hefði aukist frá 2015 þá væri slíkt vægi ferðaþjónustu og útivistar einfaldlega verðmætara fyrir svæðið og því ætti Búrfellslundur að vera í biðflokki,“ segir hann.

Alþingi breytti þeirri ákvörðun árið 2022. „Við höfum mótmælt þeirri ákvörðun og fórum fram á frestun á því að innleiða skipulag. Staðreyndin er sú að prikin fara bara ofan í jörðina í Rangárþingi ytra en þrátt fyrir að bæði í umhverfismatinu og áliti Skipulagsstofnunar komi skýrt fram að framkvæmdasvæði Búrfellslundar sé í báðum sveitarfélögum, þá hefur ekkert samtal átt sér stað við okkur í þessu og það er raunverulega verið að keyra Búrfellslund áfram án okkar aðkomu. Þrátt fyrir að áhrifasvæðið sé að fullu í okkar sveitarfélagi. Við höfum veitt umsagnir í gegnum allt ferlið fram að þessu og teljum að ekki sé löglegt að veita heimild til Búrfellslundar þar sem hann er ekki inni í skipulagi hjá okkur,“ segir hann.

Þannig sé ágreiningur uppi um skipulagslögin og það hvort reisa megi vindmyllur á sveitarfélagamörkum án samþykkis sveitarfélagsins við hliðina.

Munu kæra virkjanaleyfi

Rangárþing ytra hefur samþykkt Búrfellslund í sitt skipulag og Landsvirkjun er búin að sækja um virkjanaleyfi til Orkustofnunar. Um það hvað Haraldur telur að gerist í framhaldinu segir hann að nú velti á Orkustofnun hvort gefið verði út virkjanaleyfi.

„Gefi Orkustofnun út virkjanaleyfi geri ég ráð fyrir að við munum kæra það leyfi til úrskurðarnefndarinnar. Einfaldlega vegna þess að áhrifasvæðið er sannarlega inni í okkar sveitarfélagi líka, við teljum að ekki sé heimilt að byggja Búrfellslund fyrr en hann er kominn inn í skipulag Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Þá reynir á hvort stjórnvöldum sé heimilt að fara gegn vilja sveitarfélaganna sem eru á áhrifasvæði vindlundarins en þó ekki með prikið ofan í jörðinni,“ segir Haraldur.

Til meðferðar hjá Skipulagsstofnun er nú breyting á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2017-2029. „Með breytingunni verður mörkuð stefna um áhrifasvæði fyrirhugaðs Búrfellslundar innan Skeiða- og Gnúpverjahrepps og sett inn nýtt afþreyingar- og ferðamannasvæði austan við Sultartangastöð og skammt vestan Þjórsár. ... Stefna vegna áhrifasvæðis Búfellslundar verður á þá leið að öll neikvæð umhverfisáhrif sem kunna að verða vegna fyrirhugaðs Búrfellslundar og geta skert möguleika til landnýtingar innan Skeiða- og Gnúpverjahrepps eru óheimil innan marka sveitarfélagsins,“ segir í lýsingunni.

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...

Fiðrildategund nefnd eftir Björk
Fréttir 15. nóvember 2024

Fiðrildategund nefnd eftir Björk

Skordýrafræðingurinn Harry Pavulaan hjá Nebraska-háskóla hefur nefnt nýja fiðril...