Eldislaxar greindir
Bráðabirgðaniðurstöður DNA greininga Mast á 32 löxum sem Fiskistofa veiddi í Mjólká í Arnarfirði í ágúst síðastliðnum sýna að 16 laxar af þessum 32 reyndust eldislaxar. Hinir 16 reyndust villtir.
Vísbendingar eru um að eldislaxarnir séu frá Haganesi í Arnarfirði en gat kom á kví á því eldissvæði í ágúst 2021.
Endurkeyra þarf DNA greininguna til að geta staðfest bráðabirgðaniðurstöðurnar og í framhaldi af því verður hægt að rekja uppruna eldislaxanna nánar.
Tilkynnt um gat í sjókví
Matvælastofnun barst tilkynning frá Arnarlax mánudaginn 30. ágúst um gat á nótarpoka einnar sjókvíar Arnarlax við Haganes í Arnarfirði.
Gatið uppgötvaðist við neðansjávareftirlit og er viðgerð lokið. Samkvæmt upplýsingum Arnarlax var gatið á um tveggja metra dýpi og reyndist vera um það bil 2 x 2 metrar að stærð. Í þessari tilteknu kví voru um 120.000 laxar með meðalþyngd 0,8 kg.
Neðansjávareftirlit var áður framkvæmt 31. júlí síðastliðinn og var nótarpoki þá heill.