Eldislaxar í Ósá
Fiskistofa var við eftirlit í Ósá í lok síðasta mánaðar.
Dagana 16., 20. og 21. september veiddust fjórir laxar sem reyndust hafa útlitseinkenni eldislaxa. Aftur voru lögð net 26.–28. september, en þá veiddust engir laxar. Þetta kemur fram í svari frá Fiskistofu við fyrirspurn Bændablaðsins.
Þessir fjórir laxar voru sendir til frekari rannsókna hjá Hafrannsóknastofnun.
Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri á ferskvatns- og eldissviði Hafró, staðfestir að þessir fiskar hafi borist stofnuninni. Samkvæmt honum voru útlitseinkenni fiskanna einkennandi fyrir eldislaxa, en ekki sé hægt að staðfesta uppruna þeirra nema að lokinni erfðaefnisrannsókn.