Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Er eitur á diskunum okkar?
Fréttir 14. júlí 2016

Er eitur á diskunum okkar?

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Aðildarríki Evrópusambandsins áttu að taka afstöðu til leyfis­endurnýjunar á eiturefninu glýfósat fyrir fund sambands­ins þann 18. og 19. maí. Evrópu­sambandið frestaði því hins vegar í annað sinn þann 19. maí að greiða atkvæði um að staðfesta bann við notkun þess innan ESB sem taka átti gildi 30. júní.

Glýfosat (Glyphosate) eða N-(phosphonomethyl)glycine, er eitt þeirra virku efna, m.a. í illgresiseyðinum Roundup, sem um ræðir. Það er mikið notað í landbúnaði víða um lönd. Þó efni sem innihalda glýfósat séu ekki notuð við framleiðslu matvæla í gróðurhúsum á Íslandi, né við framleiðslu fóðurs fyrir skepnur á túnum, þá er engin rannsókn fyrirliggjandi um hvað getur leynst í innfluttum matvælum og fóðri. Vaxandi áhyggjur eru af því að gróðureyðingarefni sem og skordýraeitur berist í fólk sem neytir matjurtanna sem þannig eru ræktaðar. Einnig að efnin séu í kjöti af dýrum sem alin eru á fóðri sem ræktað er með aðstoð slíkra efna. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) skilgreindi glýfósat á síðasta ári sem mögulega krabbameinsvaldandi efni. Einnig eru læknar farnir að leiða líkum að því að orsakir aukinnar tíðni ýmissa sjúkdóma kunni að vera að finna í tilvist m.a. glýfósats í matvælum.

Í apríl var kunngerð rannsókn á þvagsýnum sjálfboðaliða meðal þingmanna Evrópusambandsins. Var rannsóknin gerð að undirlagi Græningja á Evrópuþinginu. Alls tóku 48 þingmenn frá 13 ESB-löndum þátt og lögðu fram þvagsýni. Flestir þingmannanna voru þó frá Belgíu, Frakklandi og Þýskalandi. Í öllum sýnunum sem skoðuð voru hjá Biocheck Laboratory í Þýskalandi fannst eiturefnið glýfósat.

Gríðarlegir peningahagsmunir eru í húfi og ljóst að framleiðendur efnanna leggja mikið á sig til að tryggja áfram­haldandi notkun. Roundup, sem inniheldur glýfósat, er mest notaða plöntueitur í land­búnaði Evrópu og uppspretta um eins þriðja af tekjum framleið­andans Monsanto í álfunni. Efnið er talsvert notað hér á landi, en einkum af opinberum aðilum og einstaklingum.

Úttekt Courrier International í Frakklandi

Fjallað var um mögu­lega tilvist eiturefna í matvælum í franska blaðinu Courrier International þann 11. maí síðast­liðinn. Þar var m.a. vísað í rannsókn sem þýska vikublaðið Die Zeit í Hamborg, eða Tíminn, gerði á þessari leiðandi Monsanto-afurð sem vekur mikinn áhuga bæði lobbýista og ríkisstjórna.

Varpað var fram þeirri spurningu hvort ástæða sé til að óttast þennan illgresiseyði sem leynist í meirihluta matvæla okkar.

Útdráttur úr Die Zeit – frásögn bónda nærri Hamborg

Þróunin var hæg frá fyrstu einkennum þar til hann áttaði sig á stöðunni og sagði við sjálfan sig: „Sven, það er eitthvað að hjörðinni þinni.“

Sven Krey, 34 ára, rjóður í kinnum og kringluleitur, situr í eldhúsinu sínu. Dauft ljós kemur inn um gluggann en hann fær gæsahúð þegar hann rifjar upp hvernig hryllingurinn tók sér bólfestu á bæ hans nálægt Norðursjó [í Þýskalandi]. Sælureitur þar sem orðið hryllingur virðist alls ekki eiga við.

Kreyhjónin þrífa heimkeyrsluna svo vandlega að börnin þeirra tvö fara út í gripahúsin á inniskóm. Um þessa sömu heimkeyrslu hafa farið síðustu fimm árin dýralæknar, búfræðingar og sérfræðingar í nautgriparækt. Sven Krey segir svo frá að til að byrja með hafi nytjar kúnna hans 150 farið þverrandi. Þar næst tóku þær að missa þyngd,  um 30 og 40 kíló. Loks kom niðurgangur, lófastór fleiður á júgrið og fótalömun.

Árið 2014 var svartast. Sex gripum var slátrað í neyð. Ástandið á þeim peningi, sem eftir lifði, var svo slæmt að bóndinn vissi ekki sitt rjúkandi ráð. Sven Krey reynir að koma orðum að öllum þeim tilfinningum sem sótt hafa á hann. Stórkostleg örvænting. En líka léttir þegar einhver kom loks með mögulega skýringu á ástandinu.

Of stór skammtur af glýfósat

Fyrir rúmu ári kemur Achim Gerlach, dýralæknir hjá sveitarfélaginu Burg í Slésvík-Holtsetalandi, í fyrsta sinn á bæ Kreyhjónanna. Hann greinir einkenni langvarandi eitrunar í kúm þeirra:

Vefjadrep á júgri, hala, eyrum, vandamál í maga og klaufum. Upp á síðkastið rekst dr. Gerlach oft á þessi einkenni. Eitthvað í fæði kúnna virðist valda þessum veikindum. Dýralæknirinn lætur rannsaka þvag þeirra. Í öllum sýnum finnast miklar leifar eins efnis: glýfósats.

Glýfósat er mest notaði plágueyðir í veröldinni. Það var sett á markað 1974 í Bandaríkjunum af amerísku landbúnaðariðnaðarsamsteypunni Monsanto undir nafninu Roundup og er nú notað um allan hnöttinn. Amerískir maísframleiðendur, indverskir baðmullarræktendur, argentískir sojabarónar og þýskir kornræktendur, allir úða glýfósati á akra sína. Efni sem drepur nær allar tegundir illgresis í veröldinni. Og stundum ekki bara illgresið.

Glýfósat drepur!

Langt er síðan tók að heyrast að glýfósat væri líka skaðlegt mönnum og skepnum. Og þessi hugsanlega hætta leysti úr læðingi hugmyndafræðilegt stríð. – Glýfósat drepur! – Þarf að banna tafarlaust! Þetta endurtaka umhverfis­verndarsinnar.

Forsvarsmenn bænda og samtök iðnfyrirtækja í landbúnaði sögðu aftur á móti:

Glýfósat bjargar mannslífum!

„Glýfósat bjargar mannslífum, það eykur landbúnaðarframleiðslu og fæðir heimsbyggðina.“

Í þessu stríði umhverfis­verndarsinna og fulltrúa hefðbundins landbúnaðar hefur lengi skort á að vísindalegur aðili kæmi fram sem gæti gefið álit laust við allan áróður.

Glýfósat líklega krabbameinsvaldandi!

Dag einn í mars 2015 sendi hin Alþjóð­lega krabba­meins­rannsókna­stofnun (IARC) Alþjóða­heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) frá sér álit. Eftir ítarlega skoðun á þeim vísindalegu rannsóknum sem fyrir lágu komst hún að þeirri niðurstöðu að glýfósat væri „líklega krabbameinsvaldandi“.

Glýfósat líklega ekki krabbameinsvaldandi!

Eftir úrskurð WHO virtist sem örlög glýfósats væru ráðin. En ekki var allt sem sýndist. Skömmu síðar kom þveröfug melding frá Berlín. Þar gaf Þýska áhættumatsstofnunin (Bundesinstitut für Risiko­bewertung) út sitt álit: Glýfósat er „ekki krabbameinsvaldandi“.

Um miðjan nóvember lagðist Evrópska fæðuöryggisstofnunin (Efsa), sem situr í Parma á Ítalíu, á sveif með sama úrskurði: Glýfósat væri „líklega ekki krabbameinsvaldandi“.

Hagsmunastríð

Stríðið milli baráttufólks umhverfis­verndar og hagsmunaaðila í landbúnaði hefur ummyndast í stríð vísindamanna gegn vísindamönnum (Hópur vísindamanna á vegum stofnana Evrópusambandsins hefur tekið að sér að verja hagsmuni framleiðenda og notenda svokallaðra hjálparefna – innskot blm.).
Thoralf Küchler, talsmaður Monsanto í Þýskalandi, segir: „Þessi vara stenst ítrekað próf um allan heim og er enn leyfð.“

Hver er sannleikurinn?

Á milli stríðandi fylkinga standa síðan stjórnmálamenn og almenningur sem spyr sig hver fari með sannleikann. Fyrsta svar er falið bak við framhlið úr múrsteini, gleri og stáli á Medizinisches Labor Bremen – Lyfjarannsóknastofu Bremen. Á þessari einkastofu starfar Hans-Wolfgang Hoppe, efnafræðingur sem mælir magn ýmissa efna í umhverfi okkar. Þau eru í fæðu okkar, húsgögnum og fötum, plastþynnunni sem við vefjum matvæli okkar inn í, málningunni í veggjunum, leikföngum barnanna. Þessa dagana er Hans-Wolfgang Hoppe að leita svars við spurningunni: „Hve mikið af glýfósati taka Þjóðverjar upp í líkama sinn?“

Efnafræðingurinn gengur framhjá tækjum úr ryðfríu stáli sem suða hljóðlega. Þau líkjast kæliskápum en eru álíka dýr og hús. Hvert þeirra greinir ákveðið efni sem það finnur í blóði eða þvagi. Til dæmis efnaflokk polychlorobiphenyla eða PCB.

„Áður fyrr voru þau úti um allt,“ rifjar Hans-Wolfgang Hoppe upp. En síðan 2001 eru þau bönnuð um allan heim. Líka dichlorodipheniltrychloroethane, eða DDT, sem var um tíma algengasta skordýraeitur í heimi og átti sér uppfinningamann sem fékk Nóbelsverðlaunin í læknisfræði 1948. – Síðar var DDT flokkað sem „líklegur krabbameinsvaldur“ og er bannað í flestum þróuðum löndum síðan á áttunda áratugnum.

Ekki tekið mark á viðvörunarbjöllunum

Hans-Wolfgang Hoppe segir mér sögur í rannsóknastofu sinni af ákvörðunum sem voru teknar of seint. Nýtt efni kemur fram. Fyrstu viðvörunarbjöllur hringja út í tómið. Það er ekki fyrr en fyrstu manneskjurnar veikjast alvarlega að vísindamenn fara að rannsaka virkni þeirra til hlítar. Á endanum kemur bann en það hefði mátt ákveða mun fyrr. Ef sérfræðingarnir hjá WHO hafa rétt fyrir sér þá verður sama sagan með glýfósat.

Illgresiseyðir finnst í margvíslegum matvælum og þolir suðu

Illgresiseyðir þessi kemur fram í sýnum af ostrusveppum, blómkáli, jarðarberjum, hnetum, fíkjum, linsubaunum en einnig kartöflum. Fyrir þremur árum lét þýska tímaritið Öko-Test rannsaka hvort hann fyndist í ýmsum kornafurðum. Leifar hans fundust í 14 afurðum af 20 – afurðum sem nær allir neyta daglega. Hans-Wolfgang Hoppe furðar sig á að efnið standist jafnvel suðu.

Þjóðverjar úða um 6.000 tonnum árlega yfir ræktarland

Í Þýskalandi í dag er glýfósat notað á um 40% ræktaðs lands, eða sem samsvarar um 6.000 tonnum árlega. Þótt lífrænir ræktendur hafni efninu þá nota það margir hefðbundir bændur í stað plógs: í stað þess að fjarlægja illgresi vélrænt, áður en grænmeti og korni er sáð, þá er því útrýmt með efnum.

Mest notkun samhliða ræktun erfðabreyttra tegunda

Glýfósat er þó mest notað í löndum, sem leyfa ræktun erfðabreyttra tegunda, svo sem Bandaríkjunum, Brasilíu og Argentínu. Bændur á þessum svæðum sá erfðabreyttu korni sem er ónæmt fyrir glýfósati – en tekur það hins vegar upp. Þannig geta þeir meðhöndlað akra sína jafnvel eftir sáningu til að uppræta illgresi sem komið hefur upp í millitíðinni.

Notað við sojabaunaræktun á 90 milljónum hektara

Á síðustu tuttugu árum hefur land, sem nýtt er undir erfðabreytt soja, farið úr 0 í 90 milljónir hektara – þar af eru 22 milljónir hektara í Argentínu. Argentína er paradís fyrir glýfósat.

Barnalæknir uppgötvar vansköpun barna í landbúnaðarhéruðum

Í Argentínu starfar barnalæknirinn Avila Vásquez.  Þessi barnalæknir stýrir nýbura-gjörgæsludeild heilsugæslustöðvar í borginni Córdoba í Argentínu. Til að byrja með tók hann eftir því að æ fleiri börn komu í heiminn með vansköpun af einhverju tagi. Þarnæst áttaði hann sig á að mæður þessara barna bjuggu oft í landbúnaðarhéruðum, sveitarfélögum eins og Monte Maíz.

Avila Vásquez brá sér til Þýskalands síðastliðið haust. Hann veit að ESB-framkvæmdastjórnin þarf brátt að ákveða hvort leyfið fyrir það verður framlengt eða afturkallað. Og hann vill vara Evrópubúa við.

Í Berlín ýtir Avila Vásquez á takka á fartölvu sinni. Á endurvarpsskjá sjást hvítmáluð hús í þorpi: Monte Maíz. Umhverfið er eins og grænt haf gert úr milljónum sojaplantna. Avila Vásquez tjáir sig á spænsku en túlkur snarar frásögn hans á þýsku. En skýrasta tungan er myndmálið. Blóðstokkið kýli á brjósti konu.

Opið sár sem hefur grafið sig inn í bak ungbarns. En í lokin er mynd sem tengir saman landbúnaðarumhverfið og þjáningu mannanna: Brúsar með illgresiseyði í geymslu.

„Glifosato“ bætir Avila Vásquez við. Hann sýnir tvö kort af Argentínu. Á því fyrsta sjást í dökkum lit þau svæði þar sem mest er ræktað af sojabaunum og þar sem glýfósat er mest notað. Á hinu eru svæðin þar sem dauðsföll af völdum krabbameins eru yfir landsmeðaltali. Kortin tvö eru næstum eins.

Ræktun erfðabreyttra tegunda bönnuð en innflutningur leyfður í stórum stíl

Ár hvert flytur Evrópusambandið inn 35 til 40 milljón tonn af erfðabreyttu soja framleiddu í Norður- og Suður-Ameríku. Þótt ræktun erfðabreyttra tegunda sé að mestu bönnuð í Evrópu á það ekki við um innflutning þeirra. Erfðabreytt soja lendir m.a. í jötum hjá evrópskum nautgripum, svínum og fiðurfé. Árum saman voru kýr Svens Krey fóðraðar á því. En er það glýfósatið sem olli veikindum gripanna?

Talsmenn Monsanto geisla af sjálfsöryggi

Þýskar höfuðstöðvar amerísku samsteypunnar Monsanto fylla tvær hæðir skrifstofubyggingar í Rath-hverfi í Düsseldorf. Úti lemur bylurinn rúðurnar; inni geisla tveir menn af sannfærandi sjálfsöryggi.

„Við höfum þekkt glýfósat í mjög langan tíma og við þekkjum það einstaklega vel,“ fullyrðir Holger Ophoff, yfirmaður leyfisveitingadeildar Monsanto í Þýskalandi. „Glýfósat er búið að vera á markaðnum í meira en fjörutíu ár. Það stenst ítrekað próf um allan heim og er enn leyft,“ bætir Thoralf Küchler, talsmaður Monsanto í Þýskalandi, við.

Rétt er að vísindamenn amerísku samsteypunnar uppgötvuðu fyrir mörgum áratugum hvernig glýfósat grípur inn í efnaskipti plantna: það hindrar ensím sem hefur hlutverki að gegna við myndun ákveðinna amínósýra. Án þessa ensíms drepast plönturnar á nokkrum dögum. Glýfósat-sameind er mynduð úr glýsíni, amínósýru, og fosfórsýrlingi.

Í upphafi áttunda áratugarins fékk Monsanto einkaleyfi á samsetningunni. Fyrir utan Roundup frá Monsanto eru í Þýskalandi einu um 80 glýfósat-afurðir á markaði. Fjórtán fyrirtæki framleiða glýfósat á evrópskri grund. Monsanto á þar langmesta hagsmuni í húfi. Því samsteypan selur ekki aðeins glýfósat um allan heim heldur líka erfðabreytt útsæði sem þolir illgresiseyðinn undir nafninu „Roundup Ready“, þ.e. í beinni þýðingu „varið gegn Roundup“.

/Þýðing úr frönsku: Óskar Bjarnason.
– Meira um þessi mál síðar. 

Skylt efni: Matvæli | Round Up | Frakkland

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...