ESA: Ísland þarf að breyta reglum um innflutning á fersku kjöti
Niðurstaða rökstudds álits frá ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, er að íslensk stjórnvöld þurfi að virða niðurstöðu niðurstöðu EFTA dómstólsins varðandi innflutning á fersku kjöti, eggjum og mjólkurvörum.
ESA tilkynnti um þetta á vef sínum í dag. Þar kemur fram að samkvæmt íslenskum lögum þurfa innflutningsaðilar að sækja um sérstaka heimild ef þeir hyggjast flytja inn ferskt kjöt og aðrar kjötvörur, hrá egg, ógerilsneidda mjólk og mjólkurvörur unnar úr ógerilsneiddri mjólk. „Þann 14. nóvember 2017 komst EFTA dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að slíkar innflutningstakmarkanir væru brot á EES samningnum.
Þessar auknu kröfur eru brot á tilskipun um eftirlit með dýraafurðum og viðskiptum með þær á EES svæðinu. Helsti tilgangur tilskipunarinnar er að styrkja heilbrigðiseftirlit á framleiðslustað matvæla og á sama tíma að takmarka hömlur í formi aukins eftirlits á áfangastað matvæla,“ segir í tilkynningunni.
ESA gæti vísað málinu til EFTA-dómstólsins
„Þar sem íslensk stjórnvöld hafa enn ekki brugðist við niðurstöðu EFTA dómstólsins hefur ESA tekið ákvörðun um að senda íslenskum stjórnvöldum rökstutt álit.
Rökstutt álit er annað skrefið í meðferð samningsbrotamáls. Hafi íslensk stjórnvöld ekki brugðist við innan tveggja mánaða getur ESA vísað málinu til EFTA-dómstólsins,“ segir ennfremur í tilkynningu ESA.
Hér má nálgast bréf ESA til íslenskra stjórnvalda í fullri lengd.