Færri hryssur í blóðtöku
Magn blóðs sem safnað var í blóðtöku á fylfullum hryssum stóð í stað á milli áranna 2022 og 2023.
Fjöldi blóðtökuhryssa á Íslandi í ár var 4.088 og hefur þeim fækkað örlítið frá því í fyrra þegar þær voru 4.141 talsins. Starfsstöðvarnar voru níutíu talsins líkt og í fyrra, að því er fram kemur í yfirliti frá Ísteka ehf. um starfsemi fyrirtækisins á blóðtökutímabilinu í ár.
Þar kemur fram að skilaverð blóðs úr meðalhryssu hafi verið um 112.000 kr. án vsk. sem er hækkun frá því í fyrra þegar það var 95.000 krónur. Að meðaltali fóru hryssur 5,1 sinni í blóðtöku en alls var tekið blóð í ríflega 24.000 skipti.
Þar er jafnframt sagt að hlutfall úrvalsgóðra hryssna fari stækkandi, en skilgreining þeirra eru þær sem eru tækar í blóðtöku sjö og átta sinnum. „Hlutfall þeirra var 54,7% á nýliðnu tímabili en 47,7% að meðaltali á viðmiðunartímabilinu. Bændur stunda kröftuga framþróun í þessum búskap sem lýtur jú sömu lögmálum og annar búskapur, afurðir hámarkaðar með sem fæstum gripum. Heilbrigði þeirra og heilsa spilar þar lykilhlutverk. Frjósemi hryssnanna í ár var yfir 85% sem er töluvert betri en sést almennt í hrossarækt (70–80%). Blóðnytjabúskapurinn kemur einnig vel út í flestum öðrum samanburði, svo sem í almennu heilsufari stofnsins og í þroska folaldanna.“
Eftirlit haft með starfseminni
Bæði dýralæknar og starfsmenn Ísteka hafa eftirlit með öllum blóðtökum. Að öðru eftirliti segir í skýrslunni að eftirlitsdýralæknir á vegum Ísteka hafi heimsótt um 40% starfsstöðva á tímabilinu auk heimsókna að vetri til. Þá hafi eftirlitsaðilar á vegum erlendra kaupenda á lyfjaefni Ísteka heimsótt þriðjung bænda. Einnig hafði Matvælastofnun eftirlit með starfseminni.
„Blóðtaka fer fram 12 dagsparta ár hvert hjá hverjum bónda og byggt á ofangreindum tölum um eftirlitstíðni hefur meðalbóndinn mátt eiga von á um tveimur formlegum eftirlitsheimsóknum í ár á þessu 12 daga tímabili,“ segir í skýrslunni.
Vinnumaður fékk tiltal
Samkvæmt reglugerð nr. 90/2022 um blóðtöku úr fylfullum hryssum sem fylgt var í sumar ber að skrá öll frávik sem verða við blóðtöku, þar með talið tilvik um áberandi ótta eða streitu hjá merunum.
Skráð frávik voru 144 talsins samkvæmt skýrslunni og voru endurtekin frávik skráð hjá átján hryssum, fjórtán með tvö frávik og fjórar með þrjú frávik. „Ráðleggingar Ísteka eru að eigendur hryssna, þar sem skráð eru frávik þrisvar sinnum eða oftar, þjálfi hryssuna betur áður en hún er tekin til blóðtöku aftur eða finni henni nýtt framtíðarhlutverk. Fyrir mistök gáfu 2 hryssur blóð 9 sinnum. Þeim varð ekki meint af því.“ Þá var eitt tilvik skráð sem „ofbeiting valds“ og varðaði það ungan vinnumann sem fékk í kjölfarið tiltal að því er fram kemur í skýrslunni. „Hrossum var ekki hætta búin af frávikinu en Ísteka lítur það þó alvarlegum augum og brýnir fyrir öllum að höfuðáhersla sé ávallt lögð á virðingu og nærgætni í umgengni við hryssurnar.“
Sex hryssur drápust
Sex hryssur drápust á blóðtökutímabilinu samkvæmt skýrslu Ísteka en þar er fullyrt að ekki væri hægt að tengja dauðsföllin við blóðtöku.
Þrjár hryssur voru krufnar og niðurstaða þeirra leiddi í ljós að ein hafði drepist úr hrossasótt, en „í hinum tveimur tilvikunum fékkst ekki skýring á dánarorsök og þar með ekki hvort hún tengdist blóðtöku“.
Ellefu slys á hrossum voru skráð á blóðtökutímabilinu og samkvæmt skýrslunni tengdust tvö þeirra blóðtöku. Sautján veikindi voru tilkynnt og tengdust níu þeirra blóðtöku viðkomandi grips.
„Í öllum tilfellum jafnaði hryssa sig fljótt og vel, ýmist með eða án aðkomu dýralæknis.“ Í skýrslunni má einnig finna kafla um hryssur á vegum Ísteka.
Þar kemur fram að fyrirtækið hafi haldið um 300 hryssum í blóðnytjum í ár í fimm hópum á þremur stöðum á landinu og telji það rífleg 6% af heildarfjölda hryssna. „Meðalhryssan í stóðum Ísteka gaf 5,9 einingar og 6,6 sé eingöngu miðað við fyljaðar hryssur. Þetta er nokkuð yfir landsmeðaltalinu sem var [...] 5,1 og 6,1 í sömu röð.“