Fannst í tjörn fullri af krókódílum
Hópur grasafræðinga frá Kew-grasagarðinum í London og kollegar þeirra í Vestur-Ástralíu römbuðu á áður óþekkta vatnalilju fyrir skömmu.
Grasafræðingarnir voru í leiðangri í vestanverðri Ástralíu að rannsaka og skrá tegundir vatnalilja þegar þeir fundu eina tegund sem ekki hefur verið skráð áður. Samkvæmt heimildum Bændablaðsins fannst lilja í tjörn sem var krökk af krókódílum sem ná sjö metrum að lengd og þurftu grasafræðingarnir að leggja sig í talsverðan lífsháska til að ná í eintak.
Tilgangur rannsóknanna er að kortleggja og koma eintökum af sjaldgæfum vatnaliljum í grasagarða og varðveita þær þar áður en þær verða útdauðar í náttúrunni.
Sýnishorn vatnaliljunnar óx í rúmlega hálfsmetra djúpu vatni og til hennar sást líka þar sem vatnið var mun dýpra. Krónublöð nýju liljunnar, sem ekki hefur verið gefið nafn, eru fíngerð, hvít og bleik að lit.