Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Fréttir 27. júlí 2016
Flest sauðfé í Húnaþingi vestra
Höfundur: Vilmundur Hansen
Byggðastofnun sendi nýlega frá sér skýrslu þar sem fjallað er um dreifingu sauðfjár á landinu. Í skýrslunni má meðal annars lesa um dreifingu fjár milli landshluta og sveitarfélaga.
Samkvæmt skýrslunni eru sauðfjárbú á landinu 2.498 og heildarfjöldi sauðfjár í landinu 470.678 í nóvember 2015. Flest fjár er í Húnaþingi vestra.
Flest bú með yfir 600 fjár á Norðurlandi vestra
Af 2.498 sauðfjárbúum í landinu voru 108 bú með fleiri en 600 kindur, eða 4,3% búanna. Flest þeirra voru á Norðurlandi vestra, eða 35 og næstflest á Vesturlandi 25.
Samtals voru 284 bú með 400 til 599 kindur, eða 11,4%. Flest þeirra voru á Norðurlandi vestra, eða 75, þar á eftir komu Austurland með 51, Vesturland 49, Norðurland eystra 45 og Suðurland 43.
Þegar litið er til þeirra búa sem eru með 200–399 kindur voru það 519 framleiðendur, eða 20,8%. Flestir þeirra voru á Suðurlandi eða 131 og næstflestir á Norðurlandi vestra, eða 116.
Þeir aðilar sem voru með færri en 200 kindur voru 1.587 eða 63,5% sauðfjárbúa.
Tæpur helmingur á búum með fleiri en 400 fjár
Ef horft er til fjölda sauðfjár eftir landsvæðum og stærð búa kemur í ljós að 17,4% alls sauðfjár er á búum með 600 kindur eða fleiri, 29,3% er á búum sem halda 400 til 599 kindur. Samtals er því tæpur helmingur sauðfjár á búum með fleira en 400 fjár.
Flest fé í Húnaþingi vestra
Í skýrslunni kemur fram að flest sauðfé er í Húnaþingi vestra í nóvember 2015, eða 37.716. Sveitarfélagið með næstflest fé er Skagafjörður með 34.632. Fjöldi sauðfjár í Reykjavík er 315 og er það í eigu 14 aðila, níu fjár eru í Hafnarfirði, 236 á Akureyri en ekkert sauðfé er að finna í Seltjarnarneskaupstað samkvæmt því sem segir í skýrslunni.
Fjöldi sauðfjár eftir landsvæðum og stærð búa. Heimild / Byggðastofnun
Fjöldi sauðfjárbúa eftir landsvæðum og stærð þeirra.