Frakkar nota mest af skordýraeitri við vínrækt
Vínræktendur í Frakklandi hafa undanfarið fengið yfir sig holskeflu af málaferlum sem tengjast heilsubresti og veikindum starfsmanna sem talið er að tengist ofnotkun á skordýraeitri við ræktunina.
Aukin veikindi eru bundin við ræktendur sem nota mikið af skordýraeitri en ekki lífræna ræktendur. Frakkar nota eitur allra þjóða mest í Evrópu til að halda niðri skordýrum sem herja á vínvið og einungis 8% af vínekrum Frakklands vottast með lífræna ræktun.
Í vínræktarhéraði einu í Suður-Frakklandi, sem kennt er við Languedoc-þrúguna, er meira en 60 þúsund tonnum af fjölbreyttum kokteil skordýraeiturs úðað yfir vínakrana á ári.
Í héraðinu eru milljónir af vínviðarplöntum, merlot, cabernet sauvignon og chardonnay, og framleiddar milljónir lítra af víni sem selt er um allan heim.
Allur þessi eituraustur er farinn að koma í bakið á ræktendum vegna heilsufarslegra álitamála. Fjöldi skaðabótamála hefur verið lagður fram af verkafólki sem unnið hefur áratugi á ökrunum og notað skordýraeitrið í góðri trú um skaðleysi gagnvart mönnum. Málaferlin eru meðal annars vegna fjölda krabbameinstilfella sem rakin eru til notkunar á efnunum og eru eigendur vínakranna meðal annars sakaðir um manndráp af gáleysi. Fjöldi sams konar málaferla eru í undirbúningi víðs vegar um Frakkland.
Stjórnvöld í Frakklandi hafa heitið því að draga úr notkun á skordýraeitri í landinu fyrir 2025.