Frumvarp verður lagt fram fyrir páska um innflutning holdasæðis
Í ræðu Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á aðalfundi Landssambands kúabænda í gær kom fram að stefnt sé að því að lagt verði fram frumvarp til breytinga á lögum um innflutning á holdasæði nú fyrir páska.
Í máli ráðherra kom fram að miklar breytingar hafi átt sér stað undanfarin ár í búgreininni og nú væru gjörólíkar framleiðsluaðstæður; bæði í framleiðslu á mjólk og á nautakjöti - og markaðurinn kallaði eftir aukinni framleiðslu.
Ljóst væri að ekki verði hægt að efla nautakjötsframleiðsluna svo nokkru nemi án þess að til endurnýjunar á holdanautaerfðaefninu verði. Unnið hafi verið afar mikilvæg og ítarleg vinna við undirbúning á endurnýjun erfðaefnisins og stefnir ráðherra að því að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um innflutning á holdasæði nú fyrir páska. Gangi málið hratt og vel í gegnum þingið ætti því að vera mögulegt að sæða holdakýr nú í vor og snemmsumars, enda séu þær í raun ekki sæddar á öðrum tímum árs. Því væri brýnt að klára málið núna en ekki bíða seinni tíma.
Frá þessu var greint á naut.is