Fyrsta íbúðin utan höfuðborgarsvæðis sem fær Svansvottun
Nýbygging á Melgötu 6a og 6b, á vegum Leiguíbúða Þingeyjarsveitar hses. fékk Svansvottun við formlega athöfn fyrir skemmstu. Umhverfisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, afhenti Árna Grétari Árnasyni, framkvæmdastjóra Faktabygg Ísland, Svansvottunina. Um er að ræða fyrstu nýbygginguna utan höfuðborgarsvæðisins sem hlýtur Svansvottun. Parhúsíbúðirnar við Melgötu 6a og 6b eru Svansvottaðar og eru hvor um sig 80 m2 með tveimur svefnherbergjum, eldhúsi og stofu í sama rými, forstofu og geymslu. Ísskápur og uppþvottavél fylgja með. FaktaBygg Ísland ehf. sá um framkvæmdina fyrir Leiguíbúðir Þingeyjarsveitar hses. og eru íbúðirnar nú tilbúnar til útleigu en lóðafrágangi lýkur í sumar. Fyrsti leigjandinn hefur fengið lykla að íbúðinni afhenta. Leiguíbúðir Þingeyjarsveitar hses. áforma að byggja sams konar parhús við Víðigerði í Aðaldal og kaupa tvær 67 m2 íbúðir í nýbyggingu sem verður reist á Lautavegi á Laugum í sumar. Samtals verða þetta því sex íbúðir til útleigu á vegum félagsins sem er hrein viðbót leiguíbúða í sveitarfélaginu.