Fyrsta lamb ársins heitir Henry
„Burðurinn kom okkur á óvart og var skemmtilegur og langt frá því að vera skipulagður,“ segir Björn Henry Kristjánsson, ráðsmaður að Lambeyrum í Dalabyggð.
„Lambið kom í heiminn 17. mars síðastliðinn og er myndarlegur hrútur sem konan mín kallar Henry. Ærin sem átti lambið er fædd 2007 og því komin á efri ár.“
Björn segir að tímasetning á burði á Lambeyrum sé ekki skipulögð út í æsar en á bænum eru 1.600 ær. „Ég á reyndar von á að um 20 til viðbótar beri á næstu dögum og í kringum páska.“
Að sögn Björns dafnar ærin, sem hann segir ekki hafa nafn, vel og Henry litli einnig. „Hann er í alla staði hraustur og hefur stækkað þó nokkuð frá burði.“
Annað lamb fæddist að bænum Emmubergi í Dalabyggð síðastliðinn sunnudag. Því er óhætt að segja að það sé vor í lofti í Dölunum, sauðburður sé hafinn þar og að hann hefjist fljótlega annars staðar á landinu.