Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Ellert á frjálsu brokki um hólfið sitt í eftirliti með hryssunum og njótandi sumarblíðunnar.
Ellert á frjálsu brokki um hólfið sitt í eftirliti með hryssunum og njótandi sumarblíðunnar.
Fréttir 2. október 2018

Fyrsti ýruskjótti hesturinn í íslenska hrossastofninum

Höfundur: Páll Imsland
Fyrir fimm árum fæddist foli austur í Landeyjum, sem er nú ekki frétt nema meira komi til og það gerir það svo sannarlega. 
 
Folinn ber nefnilega gen fyrir litmynstri sem ekki hefur verið til í stofninum fram að þessu. Þetta litmynstur kallast ýruskjótt og lýsir sér þannig að í litaða hlutanum, sem er einkum efri hluti líkamans, er mjög mikið af hvítum hárum, misjafnlega þétt settum. Sums staðar eru allt að því hvítir flekkir en annars staðar er feldurinn dökkur en yrjóttur af stökum hvítum hárum. Þessu yrjótta mynstri fylgir breið blesa eða hjálmur og hringir eða vögl í augum og háir sokkar og stundum hvítt undir kvið. Allt er þetta að því er virðist dálítið misjafnlega útfært hjá einstaklingum, þó dæmin séu ennþá mjög fá.
 
Bylting í íslenska hrossastofninum
 
Það er alveg ljóst að Ellert frá Baldurshaga er bylting í íslenska hrossastofninum. Með honum er komið nýtt litmynstur inn í stofninn, mynstur sem ekki hefur verið þar áður svo vitað sé, mynstur sem við getum nú og verðum að rækta áfram, skoða fjölbreytileika þess og möguleg afbrigði. Við getum leikið okkur með þessar nýju erfðir á ýmsan hátt í samspili við þá liti og hin litmynstrin sem fyrir eru í stofninum. 
Litir og mynstur eru nefnilega ekki bara augnayndi. Í þeim er fólgin fjölbreytni sem gefur möguleika í ræktun. Fjölbreytni litanna er erfðaauður. Viðhald þeirra stuðlar að virkri erfðabreidd í stofninum og fjölgun þeirra, eins og nú hefur gerst með Ellerti, eykur erfðabreiddina sem stofninn býr yfir. 
 
Orðhákar hafa löngum sagt: „Þú ríður ekki langt á litnum.“ Með þessu afgerandi orðalagi hafa þeir bæði reynt að gera lítið úr þeim hestamönnum sem hafa ánægju af litum og leggja sig eftir fágætum litum og litmynstrum og eins til að slá á umræðuna um liti, eins og hún sé einhvers konar óæðri umræða. Þeir hafa líka sagt að sumir fágætir litir beri merki um „truntukyn“ sem er annað orðalag ætlað til þess að slá umræðu út af laginu. 
 
Þessir fordómar eru þó út í hött þegar nánar er skoðað. Maður ríður einmitt á litnum. Knapi sem veit að hann situr á fögrum hesti, áberandi og útgeislandi, hann finnur til þess og er mun montnari og ánægðari í hnakknum en knapinn sem ríður við hlið hans á ljótari eða minna áberandi hesti. Er það ekki eimnmitt ánægjan sem flestir hestamenn eru á höttunum eftir?
 
Truntukyn er kannski alls ekki til
 
Truntukyn eru, þegar hugsað er út í það og skoðað í stofnerfðafræðilegu samhengi, kannski alls ekki til, þetta eru bara í raun minna ræktaðir eða ver ræktaðir hópar eða einstaklingar innan stofnsins. Hópar sem eiga framtíðina fyrir sér þegar menn snúa sér að vandaðri ræktun þeirra.
 
Enginn gat séð Ellert fyrir og eiginleika hans. Sérkenni hans hefðu líka getað farið fram hjá mönnum og ekkert orðið úr honum og stökkbreytingin sem hann býr yfir þannig farið forgörðum og aldrei sest að í stofninum, en sem betur fer gerðist það ekki og hann er hér með sérkenni sín og í fullu fjöri. Hann er fagur og fagurlitaður og gæðingur í ofanálag, ljúflingur í skapi, algjört draumahross og af ágætum ættum, sem fáir myndu kenna við truntur. Ellert auðgar hrossastofninn og nú er komið að okkur að taka hann lengra með ræktun út af honum og festa þannig þetta litmynstur hans í stofninum.
 
Til þess að gera þeim betur skyljanlegt hvað hér er á ferðinni, sem eiga bágt með að sjá það fyrir sér, hversu mikil tíðindi tilkoma Ellerts er í raun, skulum við hugsa okkur að upp hefði komið hestur sem sýndi nýja gangtegund. Hesturinn hefur fjóra fætur og það eru fræðilega fjölmargir möguleikar á kerfisbundinni notkun þeirra, mun fleiri en þær fimm gangtegundir sem við þekkjum í íslenska hestinum og er eitt aðalatrði þegar við mærum hann. Ég hef lagt það sem þraut fyrir stærðfræðinga og hestamenn, að leysa út því hversu mörgum gangtegundum hesturinn gæti búið yfir, fræðilega séð. Þeir hafa allir gefið dæmið frá sér og ekki treyst sér til að leysa það. Það er því alls ekki fáránleg hugmynd til útskýringa og áréttinga á sérstöðu Ellerts að ímynda sér til samanburðar nýja gangtegund. Fengjum við allt í einu hest sem sýndi nýja gangtegund, myndum við ekki kalla það byltingu fyrir stofninn?
 
Þannig bylting er Ellert. Hann býr yfir nýjung, eiginleika sem ekki var fyrir hendi áður. Þetta er nýjung sem kemur til nota í stofninum og sem auðgar stofninn að erfðafjölbreytni. Þessari nýjung eigum við að spila úr á næstu árum og áratugum, ef íslenski hrossastofninn heldur velli, heilsu og vinsældum. Við verðum að gæta þess að þessi stökkbreyting glatist ekki og áhrifin af henni nái að breiðast út um stofninn og komi sér þar fyrir til frambúðar. Enn sem komið er búa ekki fleiri hross en Ellert og fjögur afkvæmi hans yfir eiginleikanum og það er því auðvelt að glata honum. Hér er um metnaðarmál og stofnverndarmál að ræða og allir verða að leggjast á árarnar til að viðhalda þessum eiginleika í stofninum í landinu, ekki bara eigandi Ellerts og stjórn Stofnverndarsjóðs. Ekki er að efa að útlendingar munu sækjast eftir afkomendum Ellerts og við verðum á meðan eiginleikinn er svona fágætur að hafa það í huga að viðhalda og efla hann hér heima. Koma honum þannig fyrir í stofninum hér að hann nýtist vel og verði þar fastur í sessi. Þeir sem eiga úrvalsgóðar hryssur, hátt dæmdar og hæfileikaríkar, fagurskapaðar og geðprúðar eiga nú sóma síns vegna og í þágu íslenska hrossastofnsins hér á landi að hugsa vel sinn gang og koma merum undir Ellert. Þannig er best tryggt að þessi eiginleiki festist og nýtist í stofninum.
Nú liggur þegar fyrir í grófum dráttum hvaða áhrif Ellert hefur í samspili við einlitar hryssur. Seinna kemur í ljós hvaða áhrif hann hefur þegar hann fer að blanda þessum einstöku erfðum sínum við genasafn hryssa sem bera önnur litmynstur. Það eru margir möguleikar í spilinu. 
 
Ellert hefur þegar þetta er ritað eignast átta afkvæmi og fjögur þeirra eru einlit á hefðbundinn hátt, en hin fjögur eru ýruskjótt, eins og Ellert og bera mynstrið með brúnum, móálóttum og bleikálóttum grunnlit. Eiginleikinn virðist því erfast svokölluðum ríkjandi erfðum, eins og grátt, litförótt og skjótt gera. Þegar hann fyljar eru sem sagt helmings líkur á því að fylið fái ýruskjótt mynstur. Sömuleiðis bendir grunnlitasafnið í folöldum hans til þess að ýruskjótt mynstur geti komið fyrir með hvaða grunnlit sem vera skal.
 
Frábær sem reiðhestur og skapgæðingur
 
Baldur Eiðsson, eigandi Ellerts, og hans fólk hafa tekið ákaflega skynsamlega á uppeldi og notkun hestsins og eiga hrós skilið fyrir. Þau hafa séð til þess að hann var ekki seldur úr landi eða settur í gróðabrall, heldur taminn vandaðri tamningu og notaður heima og af skynsemi. Það hefur leitt til þess að við vitum nú í grófum dráttum, að hann er frábær sem reiðhestur og skapgæðingur og einnig hvernig hann nýtist best til undaneldis með tilliti til þess hvernig hann skilar litum og hinu nýja litmynstri sínu. Nú er komið að okkur hinum öllum, sem erum gæslumenn íslenska hrossastofnsins í samráði við eigendur Ellerts, að sjá til þess að litmynstur hans festist í stofninum og verði þar til frambúðarnota. Það auðgar erfðamengi stofnsins og er gull að verðgildi. Nú ríður á að eigendur úrvalsgóðra hryssa sæki sér fyl til Ellerts og spili vel úr því sem þeir fá. Einkum liggur sú siðferðilega skylda á þeim sem mikið hafa sótt í stofninn að undanförnu að nota þetta tækifæri til að skila stofninum örlitlu til baka, greiða vextina, ef svo má segja.
 
Páll Imsland

11 myndir:

Framleiðsla graspróteins óhagstæð í náinni framtíð
Fréttir 2. janúar 2025

Framleiðsla graspróteins óhagstæð í náinni framtíð

Vænlegast þykir enn sem komið er að horfa til notkunar á verkuðu votheyi til nýt...

Kolefnismarkaðir fá lagalega umgjörð
Fréttir 2. janúar 2025

Kolefnismarkaðir fá lagalega umgjörð

Lagt er til að hugtakið kolefniseining verði skilgreint í lögum og að þær verði ...

Búsæld seldi KS- hlutinn í heild
Fréttir 30. desember 2024

Búsæld seldi KS- hlutinn í heild

Búsæld seldi hlut sinn í Kjarnafæði Norðlenska (KN) í heild til Kaupfélags Skagf...

Styrkir til verslana
Fréttir 30. desember 2024

Styrkir til verslana

Sex dagvöruverslanir í minni byggðarlögum kringum landið hlutu styrki frá innvið...

Jólatrjáalundur hreindýrabóndans
Fréttir 27. desember 2024

Jólatrjáalundur hreindýrabóndans

Stefán Hrafn Magnússon, hreindýrabóndi í Grænlandi, hefur gróðursett tré á landi...

Kyngreining sæðis hafin
Fréttir 27. desember 2024

Kyngreining sæðis hafin

Við Nautastöð Bændasamtaka Íslands á Hesti í Borgarfirði hefur verið komið upp f...

Áskrift að Bændablaðinu 2025
Fréttir 27. desember 2024

Áskrift að Bændablaðinu 2025

Gefin eru út 23 tölublöð af Bændablaðinu ár hvert. Upplagi þess er dreift um all...

Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...