Garðyrkjufrömuðir verðlaunaðir
Vel viðraði á nokkur þúsund gesti á opnu húsi í Garðyrkjuskóla Landbúnaðarháskóla Íslands á Reykjum í Ölfusi á sumardaginn fyrsta. Um þessar mundir er því fagnað að áttatíu ár eru liðin frá upphafi garðyrkjumenntunar á Reykjum.
Hr. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ásamt eiginkonu sinni, Elizu Reid, og Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra heiðruðu samkomuna með nærveru sinni ásamt því að veita árleg garðyrkju- og umhverfisverðlaun.
Gestir kynntu sér starfsemi skólans og umhverfi. Nemendur sýndu afrakstur vetrarstarfsins, seldu grænmeti og kryddjurtir auk þess sem félög og fyrirtæki kynntu starfsemi sína og seldu afurðir.
Var skólastjóri Garðyrkjuskóla ríksins í 32 ár
Grétar J. Unnsteinsson, fyrrverandi skólastjóri Garðyrkjuskóla ríkisins, hlaut heiðursverðlaun garðyrkjunnar. Í ágripi um Grétar sem LbhÍ tók saman stendur m.a.:
„Grétar er fæddur á Reykjum í Ölfusi árið 1941, sonur hjónanna Unnsteins Ólafssonar, þáverandi skólastjóra Garðyrkjuskólans og Elnu Ólafsson, eiginkonu hans, en hún var dóttir dansks óðalsbónda. Unnsteinn varð fyrsti skólastjóri nýstofnaðs Garðyrkjuskóla ríkisins á Reykjum í Ölfusi árið 1939 og var hann sannkallaður brautryðjandi í að koma á skipulagðri garðyrkjumenntun í landinu.
Grétar ólst upp á Reykjum og sleit þar barnsskónum, hann gekk síðan menntaveginn og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni vorið 1962. Því næst hélt hann til Danmerkur og stundaði nám við garðyrkjudeild Landbúnaðarháskólans í Kaup-mannahöfn 1962–1966. Þegar faðir hans varð bráðkvaddur vorið 1966 kom Grétar heim til Íslands að loknu námi og tók við stöðu skólastjóra Garðyrkjuskólans og gegndi þeirri stöðu til ársloka 1998, eða í 32 ár. Grétar bjó á Reykjum ásamt fjölskyldu sinni en hann er kvæntur Guðrúnu Guðmundsdóttur kennara, þau eiga þrjú uppkomin börn og myndarlegan hóp barnabarna.“
Í ræðu Guðna Th. Jóhannessonar, sem veitti Grétari verðlaunin, kom fram að Grétar hafi með natni sinni og kostgæfni komið nafni Garðyrkjuskólans á kortið í skólastjóratíð sinni.
„Starf Grétars byggði á traustri undirstöðu föður hans og var það eitt af hans fyrstu verkum að ljúka byggingu nýs skólahúss undir Garðyrkjuskólann. Garðyrkjustöðin var endurbyggð og heimaland skólans var skipulagt af miklum myndarbrag. Samkvæmt því var lögð áhersla á uppbyggingu skrautgarða við skólabygginguna og framþróun í trjárækt og skógrækt. Í hlíðum Reykjafjalls er kominn nytjaskógur, skógur sem í dag er nýttur til kennslu og er jafnframt frábært útivistarsvæði. Skólastarfið var drifið áfram af miklum dugnaði og óþreytandi eljusemi Grétars, hann var vakinn og sofinn yfir því að tryggja rekstur skólans og að byggja upp metnaðarfullt garðyrkjunám sem svaraði kröfum atvinnulífsins hverju sinni.“
Fræðsla og eftirfylgni lykill að velgengni matjurtagarða
Jóhann Thorarensen, garðyrkju-fræðingur fyrir hönd Matjurtagarða Akureyrarbæjar, hlaut hvatn-ingarverðlaun garðyrkjunnar 2019.
Jóhann kom á fót matjurtaræktun fyrir almenning á Akureyri árið 2009. Hann hafði þá lengi haft áhuga á efninu og ákvað að hrinda hugmyndinni í framkvæmd eftir fjármálahrunið 2008. Mikill áhugi hefur verið meðal almennings strax í upphafi, en þá var áætlað að leigja út 50–100 garða en niðurstaðan varð 200. Árið eftir urðu matjurtagarðarnir 300 og bættust þá við garðar í Hrísey og Grímsey. Næstu ár slógust nokkrir leik- og grunnskólar ásamt dvalarheimili aldraða á Akureyri með í för. Í dag eru þátttakendurnir um 250 talsins.
Velgengni verkefnisins er ekki síst fræðslu og eftirfylgni Jóhanns og starfsfólki hans að þakka að mati Landbúnaðarháskólans.
Framkvæmd matjurtarækt-unarinnar fer þannig fram að eftir að búið er að úthluta görðunum er opið hús á sumardaginn fyrsta. Þar fær fólk fræðslu í sáningu og meðferð plantna. Einnig er lítill bæklingur afhentur þar sem hver og einn getur lesið sér til um ræktunina. Um miðjan maí fá allir þátttakendur fræ og spíraðar kartöflur. Forræktaðar kálplöntur eru síðan afhentar um mánaðamótin maí/júní. Eftir því sem árin líða hefur jafningjafræðsla aukist meðal ræktenda og fólk aðstoðar hvað annað. Oft má sjá fleiri ættliði saman að störfum í görðunum og er ræktunin ánægjuleg samvera fjölskyldunnar.
Að hausti fara ræktendur ánægðir heim með uppskeruna og sýna Jóhanni gjarnan afraksturinn. Jóhann hefur einnig fengið til samstarfs við sig hússtjórnarkennara sem sýnir fólki hvernig best er að geyma og nýta grænmetið.
Fagmennska í blómaskreytingum
Garðheimar – blómaskreytingar, var kjörinn verknámsstaður garð-yrkjunnar 2019 en Jóhanna Margrét Hilmarsdóttir, verknáms-kennari í blómaskreytingum, veitti verðlaununum viðtöku.
Garðheimar er fjölskyldu-fyrir-tæki sem hefur verið starfrækt frá árinu 1991, stofnað af hjón-unum Gísla Sigurðssyni og Jónínu Lárusdóttur. Starfsmenn fyrirtækisins í dag eru um 60 talsins og hafa flestir verið þar starfandi í árafjölda. Sumir hverjir alveg frá upphafi eins og Jóhanna Margrét Hilmarsdóttir, sem og móðir hennar, sem er þekkt andlit í garðyrkjunni, hún Gugga, sem er nýhætt störfum sökum aldurs.
Í Garðheimum starfa alls um 15 starfsmenn í blómadeildinni, þar af eru þrír lærðir blómaskreytar. Mikill áhugi er á því í fyrirtækinu að hafa blómaskreytinganema í hópnum. Sérstaða Garðheima í blómaskreytingum er fjölbreytni í bæði stíl og verkefnum og gerir starfsfólkið sitt besta til að fylgja nýjustu straumum og stefnum ásamt því að halda í hefðir, að því er fram kom í ræðu Guðna Th. Jóhannessonar.
Jóhanna Margrét Hilmarsdóttir blómaskreytir hefur starfað sem deildarstjóri blómadeildarinnar frá stofnun en hún á að baki langa reynslu í blómabransanum. Hún ólst upp á Garðyrkjustöðinni Ekru, Laugarási og stofnaði ásamt foreldrum sínum blómabúðina Grænu höndina árið 1985. Hún ákvað eftir áralangt starf að fara í Garðyrkjuskóla LbhÍ og útskrifaðist af blómaskreytingabraut árið 2014.
„Ástæðan fyrir því að hún ákvað að fara í námið var til að styðja við bakið á greininni og efla fagmennskuna í blómadeild Garðheima. Þá vildi hún öðlast betri skilning á náminu til að geta betur tekið á móti nemum í Garðheimum, sem hún gerir með myndarbrag“, segir í ágripi LbhÍ um verðlaunahafann.
Ragnheiður Þórarinsdóttir, rektor LbHÍ, Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra og Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri Hveragerðis, voru í blómaskapi.
Umhverfisvitund Sunnlendinga
Auk garðyrkjuverðlaunanna voru Umhverfisverðlaun Hvera-gerðis-bæjar og Sveitarfélagsins Ölfuss afhent. Rauða kross-deild Hvera-gerðisbæjar hlaut þau fyrrnefndu fyrir starf sitt í þágu endurnotkunar og endurvinnslu á líni.
Leikskólinn Bergheimar hlaut þau síðarnefndu, en starf hans byggir á hinu alþjóðlega Grænfánaverkefni (Eco-Schools) sem miðar að því að mennta nemendur og starfsfólk í sjálfbærni og umhverfisvernd. /ghp