Greta Clough ráðin markaðs- og viðburðastjóri
Textílmiðstöð Íslands hlaut tvo styrki frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra, sem afhentir voru við hátíðlega athöfn í félagsheimilinu á Hvammstanga á dögunum.
Annars vegar er um að ræða rekstrarstyrk að upphæð 1,1 milljón króna og hins vegar ríflega 5,1 milljón króna til að ráða viðburða- og markaðsstjóra fyrir Prjónagleðina sem haldin verður á Blönduósi 12.–14. júní á þessu ári.
Greta Clough hefur verið ráðin markaðs- og viðburðastjóri en hún hefur getið sér gott orð fyrir Handbendi Brúðuleikhús á Hvammstanga og hefur víðtæka reynslu af viðburðastjórnun og markaðssetningu. Hún hefur þegar tekið til starfa.
Prjónagleðin er árleg prjónahátíð sem haldin er af Textilmiðstöð Íslands og samstarfsaðilum. Hátíðin er haldin á Blönduósi og er fyrirmynd hennar hin árlega Prjónahátíð á Fanø í Danmörku. Hátíðin í sumar er sú fimmta í röðinni. Verkefni markaðsstjóra er m.a. að skipuleggja viðburði í tengslum við hátíðina í samstarfi við stofnanir og fyrirtæki á Norðurlandi vestra og að markaðssetja hátíðina, jafnt hér á landi sem erlendis.