Gróska hjá blómabændum
Á Espiflöt í Reykholti í Biskupstungum hefur á undanförnum vikum verið unnið að hækkun á einu gróðurhúsi blómabændanna sem þar reka garðyrkjustöð sína, í því skyni að skapa skilyrði til aukinnar framleiðslu.
Mikill uppgangur hefur verið í blómaframleiðslu á undanförnum árum, eða allt frá því að Covidfaraldurinn skall á Íslandi í byrjun árs 2020.
Axel Sæland, formaður deildar garðyrkjubænda hjá Bændasamtökum Íslands, stýrir garðyrkjustöðinni á Espiflöt og segir hann að tekið hafi verið gamalt og vel byggt 1.200 fermetra gróðurhús og það hækkað um 1,5 metra.
„Við fengum hollenskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í þannig aðgerðum til að sjá um verkið. Með aukinni lofthæð skapast betri skilyrði inni í gróðurhúsinu hvað varðar loft og raka. Við getum líka sett upp öflugri vaxtarlýsingu,“ segir Axel.
Axel gerir ráð fyrir að uppskeran aukist um 30–50 prósent þegar framkvæmdinni er lokið og gróðurhúsið komið í fullan gír aftur.
„Sala á blómum jókst mjög í Covid og hefur ekkert dregist saman síðan. Þetta hefur aukið á tekjur okkar og við nýtt það til að reyna að gera enn betur eins og þessi aðgerð sýnir.“