Hagur kúabúa vænkast
Hagnaður kúabúa jókst milli áranna 2022–2023 og skuldahlutfall þeirra fer lækkandi, samkvæmt fyrstu tölum í uppgjöri á rekstri kúabúa sem Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins tekur saman.
Tölurnar byggja á uppgjöri 120 kúabúa en mjólkurframleiðsla þeirra nam 46,2 milljónum lítra árið 2023. Viðbótargreiðslur sem samþykktar voru í ríkisstjórn í desember 2023 og afurðaverðshækkanir eru helstu ástæður aukins hagnaðar.
„Viðbótargreiðslurnar voru annars vegar 500 milljónir króna á innvegna mjólk fyrstu 11 mánuði þess árs og hins vegar viðbótargreiðslur á nýliðunar- og fjárfestingastuðning, sem reiknast að meðaltali 5,3 kr/ltr skv. uppgjöri þessara 120 kúabúa. Rétt er að benda á að sá stuðningur var greiddur á grunni umsókna um fjárfestinga- og nýliðunarstuðning og þar með mjög misjafnt hvort og hve háar fjárhæðir voru greiddar til bænda,“ segir í frétt frá RML.
Breytilegur kostnaður hækkar lítillega milli ára en kostnaður vegna áburðar lækkar, sem skýrist af lækkun verðs og minni áburðarkaupum. Fóður og aðkeypt þjónusta hækkar á móti.
„ Framlegðarstig búanna hækkar í um 54% og hlutfall rekstrarafgangs (EBITDA) af heildarveltu fer yfir 30%. Skuldahlutfall búanna fer lækkandi og stendur nú í 1,5 en fjármagnsliðir fara vaxandi og eru komnir í 14,7% af heildartekjum búanna og hafa hækkað verulega í krónum talið,“ segir jafnframt í frétt RML.