Iceland er kýr ársins í Kanada
Það væri til að æra óstöðugan ef greint yrði frá öllum þeim kúm víða um heim sem hljóta viðurkenningu fyrir glæsileika, hátt kynbótagildi og aðra kosti.
Heimasíða Landssambands kúabænda, Naut.is, gerði undantekningu á þessu af augljósum ástæðum fyrir skömmu þegar kýr með hið einkar viðkunnanlega og fallega nafn Iceland var kosin kýr ársins af valnefnd fyrir kanadískar mjólkurkýr af stutthornskyni.
Kýrin er frá kúabúinu Richford Farms í St. Mary‘s í Ontario en búið er í eigu hjónanna Karen og Don Richardson. Iceland er á þriðja mjaltaskeiði og sögð afburðagripur útlitslega og skilar verðefnamikilli mjólk, bæði hvað varðar fitu og prótein.