Íslenska kokkalandsliðið fékk aftur gull á Ólympíuleikunum í matreiðslu í gær
Íslenska kokkalandsliðið vann aftur til gullverðlauna á á Ólympíuleikum í matreiðslu í Stuttgart í Þýskalandi í gær, þegar keppt var í heita matnum (hot kitchen).
Íslenska landsliðið hefur því fengið tvenn gullverðlaun út úr báðum keppnum sínum, en það fékk líka gull fyrir flokkinn Chef´s table frá því á laugardaginn.
Er nú beðið tilkynningarinnar á morgun um það hvaða lið stendur uppi með flest heildarstigin út úr keppnunum tveimur, en það lið verður krýnt Ólympíumeistarar kokkalandsliða. Íslenska liðið er í vænlegri stöðu þar sem einungis sænska landsliðið hefur einnig fengið gullverðlaun út úr báðum keppnum.
Í gær var eldað frá grunni á keppnisstað, samkvæmt þriggja rétta matseðli fyrir 110 manns. Íslenskt hráefni var þar í aðalhlutverki; meðal annars íslensk bleikja, íslenskt lamb og skyr.
Heildarúrslitin verða tilkynnt í fyrramálið, en nánari upplýsingar um stöðuna í landsliðskeppninni má finna á vef keppninnar.
Kokkalandsliðið skálar eftir seinni keppnisdaginn í gær.