Íslenska kokkalandsliðið fékk gullverðlaun í gær á Ólympíuleikum í matreiðslu
Íslenska kokkalandsliðið keppir þessa dagana á Ólympíuleikum í matreiðslu í Stuttgart í Þýskalandi og fékk gullverðlaun fyrir frammistöðuna á fyrri keppnisdeginum á laugardaginn, þegar keppt var í flokknum Chef´s table. Seinni keppnisdagurinn er í dag og þá er keppt í heita matnum (hot kitchen).
Gefin eru gull-, silfur- og bronsverðlaun samkvæmt stigaútreikningi og af þeim 28 landsliðum sem taka þátt fengu þrjú gullverðlaun í gær; Ísland, Þýskaland og Svíþjóð. Skotland og Pólland fengu silfur og Ungverjaland og Portúgal brons.
Íslenskt lamb í boði íslenska kokkalandsliðsins. Mynd / Facebook-síðan Kokkalandsliðið
Íslenskt hráefni
Í gær var fyrirkomulagið með þeim hætti að framreiddur var sjö rétta hátíðarkvöldverður fyrir tíu manna borð, og tvo dómara að auki. Í reglunum var gert ráð fyrir að kvöldverðurinn stæði saman af fiskréttafati, pinnamat, vegan-rétti, lambakjöti og desert. Á hráefnislista íslenska liðsins var talsvert af íslensku hráefni; meðal annars hörpuskel, gæs, reykt ýsa, bleikja, wasabi, lamb og skyr.
Dómarar taka mið af bragði, útliti, samsetningu, hráefnisvali og fagmennsku við undirbúning og matreiðslu.
Eldað í dag fyrir 110 manns
Í keppninni í dag verður eldað frá grunni á keppnisstað, samkvæmt þriggja rétta matseðill fyrir 110 manns.
Fylgjast má með framvindunni í dag hjá íslenska landsliðinu í beinni útsendingu í gegnum vef keppninnar.
Áætlað er að matreiðslu verði lokið um klukkan 18 að íslenskum tíma.
Eftirtaldir matreiðslumeistarar skipa íslenska kokkalandsliðið: Sigurjón Bragi Geirsson, Björn Bragi Bragason, Fanney Dóra Sigurjónsdóttir, Kristinn Gísli Jónsson, Snorri Victor Gylfason, Sindri Guðbrandur Sigurðsson, Snædís Xyza Mae Jónsdóttir, Ísak Darri Þorsteinsson, Jakob Zarioh Sifjarson Baldvinsson, Ísak Aron Ernuson og Chidapha Kruasaeng.