Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Fréttir 6. febrúar 2018
Höfundur: smh
Á bænum Sandhóli í Meðallandi í Skaftárhreppi er stunduð umfangsmikil jarðrækt samhliða kúabúskap. Um nokkurra ára skeið hafa bændurnir þar, í samstarfi við nágranna sína, verið að prófa sig áfram með ræktun á nokkrum ræktunartegundum sem ætlaðar eru til manneldis; meðal annars repju og höfrum. Íslenskir hafrar frá Sandhóli eru einmitt á leið í Bónusverslanir á næstu vikum.
Fyrir skemmstu var sagt frá því í fjölmiðlum að heimaframleidd repjuolía frá Sandhóli væri á leið í Bónus og mun hún vera væntanleg í fleiri verslanir innan skamms.
Örn Karlsson í repjuolíuvinnslunni. Mynd / Magnús Hlynur Hreiðarsson
Meðallandið hentar vel til ræktunar
„Við höfum almennt áhuga á aukinni ræktun og hjá okkur í Meðallandinu henta aðstæður vel til ræktunar,“ segir Örn Karlsson, bóndi á Sandhóli. „Við erum töluvert sunnar en Reykjavík á landakortinu og allt land er slétt og laust við grjót. Hér er hægt að gera stóra slétta akra sem henta vel fyrir nútímatæki.
Samhliða ræktun erum við að byggja upp nokkuð stórt kúabú á íslenskan mælikvarða, þar sem eingöngu eru ræktaðir nautgripir með kjötframleiðslu í huga. Þetta tvennt fer vel saman því túnrækt er nauðsynleg í skiptirækt hjá okkur og afurðir sem falla til við úrvinnslu á vörum úr ræktuninni, nýtist í fóður og undirburð.“
Samvinna bænda
Ábúendur á Efri-Ey 1 og Grund eru í samstarfi við Sandhólsbændur og segir Örn að allar jarðirnar séu nýttar við ræktun og beit, þótt byggingar og vinnslan séu á Sandhóli.
„Við höfum líka ræktað bygg og vetrarrúg sem fer í bruggverksmiðju. Við þurrkum, hreinsum og stærðarflokkum byggið og rúginn, látum það stærsta frá okkur en nýtum annað til fóðrunar á nautgripum. Hálmurinn er að mestu nýttur undir nautgripina okkar, en nágrannar okkar kaupa einnig af okkur hálm,“ segir Örn.
Hratið nýtist sem próteingjafi í nautaeldinu
Örn segir að „repjuolían“ þeirra sé í raun olía úr nepju – sem er káltegund náskyld repjunni, en enginn útlitsmunur er á þeim. Olía úr þessum jurtum sé jafnan seld sem repjuolía. „Við höfum náð góðum tökum á þessari ræktun eftir að við fórum að notast eingöngu við vornepju,“ segir Örn, en henni er sáð að vori og hún svo skorin upp um haustið. „Öll yrki af vornepju sem við höfum komist í hafa hentað okkur þótt nú um stundir sé erfitt að fá nokkuð annað en Cordelia-yrkið. Vetrarafbrigðin henta ekki vel í okkar sveit enda geta veturnir verið ansi umhleypingasamir. Haustveður hafa lítil áhrif á þessar jurtir, utan þess að við lentum einu sinni í tjóni út af hagli sem buldi á okkur einn haustdag – áður en búið var að koma öllu í hús. Fræið af nepjunni er kaldpressað og við náum um 35 prósent af þyngd fræsins í formi olíu; þannig að þegar við pressum eitt tonn af fræi fást 350 kíló af olíu. Afgangurinn er repjuhrat sem við nýtum sem próteingjafa í nautaeldinu og losnum þannig við að kaupa fiskimjöl. Hálminn nýtum við einnig undir nautgripi. Olían sem kemur úr pressunni er síuð og þá er hún tilbúin til neyslu,“ segir Örn.
Kaldpressuð olían er með hnetukeim og hollum fitusýrum
En þegar þú ert kominn með nýja vöru í hendurnar tekur markaðssetningin við og það getur verið vandkvæðum bundið, að sögn Arnar, að fá neytendur til að breyta út af vananum. „Það hefur tekið á að koma repjuolíunni í sölu. Kaldpressuð repjuolía er allt önnur vara en sú innflutta unna repjuolía sem hingað til hefur fengist á Íslandi. Kaldpressuð olía er hnausþykk, með áberandi hnetukeim og stútfull af Omega-3 fitusýrum – sem þykja það hollasta í dag. Til að byrja með fengum við dreifingaraðila til að hjálpa okkur við að koma olíunni í verslanir og á veitingastaði. Það gekk mjög hægt og var því samstarfi eiginlega sjálfhætt því hvorugur aðili var að hafa mikið upp úr þessu. Eftir að við fórum að djöflast í þessu sjálf hefur áhugi aukist og nú fæst kaldpressuð repjuolía frá Sandhóli í fjölmörgum verslunum.
Við höfum líka verið að selja olíu til sápugerðar og í að útbúa smyrsl. Meira að segja línusjómenn eru farnir að sækjast eftir olíunni. Þeir geta ekki notað jarðefnaolíur til að smyrja línur sínar og króka. Þá hafa hrossabú verið að nota olíuna fyrir hestana sína til að fá gljáa á feldinn. Sala á svona vöru er endalaust verkefni. Við höfum áhuga á að fá túrista til að kaupa vöruna og svo er veitingageirinn eftir.“
Hafrar að vissu leyti auðveldari í ræktun en byggið
„Við höfum náð að rækta hafra til fulls þroska í mörg ár og notum yrkið Cilla. Þótt vaxtartími hafra sé lengri en á byggi þá hefur veður minni áhrif. Eins og kornbændur vita þá geta djúpar haustlægðir skemmt bygg mikið, en þær hafa lítil áhrif á hafra. Við erum mjög ánægð með að rækta bæði hafra og bygg. Byggið er tilbúið á undan og síðan taka hafrarnir við. Þegar korn er unnið til manneldis þarf að þurrka það allt. Þurrkun er mikill flöskuháls, alla vega hjá okkur. Við notum súgþurrkun til að halda korninu köldu á meðan þurrkarinn er að klára sinn skammt.
Ef það byrjar að hitna í korni, er það slegið af til manneldis. Í fyrra prófuðum við að dreifa höfrum til manneldis; bæði haframjöli og tröllahöfrum. Viðtökurnar voru þannig að við ákváðum að gefa í og eigum nú hafra til að dreifa í verslanir. Það er verið að hanna umbúðir núna og styttist í að fyrsta sending komi í Bónus,“ segir Örn.
Bragðmeiri hægvaxta hafrar
Matís var fengið til að efnagreina hafrana úr Meðallandinu og mælast þeir mjög svipaðir og danskir hafrar. „Útiræktað korn og grænmeti vex hægt í svölu íslensku sumri. Það gerir það að verkum að afurðirnar verða bragðmeiri en þær snöggsprottnu. Að maður tali nú ekki um að hér erum við ekki að úða eitri á akrana okkar til að verjast skordýrum.
Við höfum einnig verið að fikta við ræktun á ýmsum tegundum með misjöfnum árangri og höfum mikinn áhuga á að rækta kúmen, en gengið illa að fá gott fræ. Við prófuðum finnst yrki sem spíraði ekki hjá okkur, en eigum nokkur yrki af sænsku fræi sem við erum að prófa. Svo fór vösk sveit út í Viðey síðastliðið haust og tíndi fræ. Verður prófað að rækta það í sumar á tveimur stöðum, hér á Sandhóli og í Bjálmholti,“ segir Örn.
Hálmfjós í byggingu
Á Sandhóli er sem fyrr segir fjós í byggingu; 300 gripa fjós sem verður notað undir eldisgripi. Örn segir að fjóstegundin hafi verið ákveðin að vel yfirlögðu ráði. „Við ferðuðumst víða til að skoða fjós, innanlands og erlendis, og ákváðum loks að byggja fjós þar sem gripirnir liggja á hálmi. Við sáum að þannig líður skepnunum langbest. Þeir liggja stundum á allri hliðinni með allar lappir út eins og maður sér hesta gera. Það er ekki algengt að reisa hálmhús á Íslandi, enda vantar flesta hálm. Við sjáum fyrir okkur mikla byltingu í nautakjötsframleiðslu þegar við getum farið að rækta úr Aberdeen Angus-gripunum sem verða ræktaðir á einangrunarbúinu á Stóru Ármótum. Því miður tekur ræktunarstarf bara svo langan tíma.“
Bændur færast nær neytendum
Örn telur framtíð landbúnaðar á Íslandi bjarta. „Það eiga sér stað ákveðnar breytingar sem ekki allir taka eftir. Margir bændur eru að koma sér nær neytandanum. Meira verður gert í því að tengja býlin við afurðirnar. Verslanir og veitingastaðir verða með upprunamerktar vörur, jafnvel undir vörumerkjum. Svo þarf kjötflokkunin að skila sér til neytandans.
Eitt er það þó við aðstæður landbúnaðarins sem þarf að stórbæta en það eru rannsóknir á háskólastigi. Það voru ákveðin vonbrigði að Landbúnaðarháskóli Íslands tengdist ekki Háskóla Íslands betur eins og til stóð með stórauknu framlagi til rannsókna. Við getum nefnilega ekki tekið erlendar rannsóknarniðurstöður og heimfært beint upp á Ísland. Við vitum það að tegundir og yrki henta misvel til stranda og sveita, norðan og sunnan. Hægt er að nefna ýmis dæmi um þetta. Til að gera nautakjötsframleiðslu arðbærari þarf að auka vor og haustbeit. Hvaða gras- og káltegundir henta í það? Það væri æskilegt að geta fundið tegundir sem eru orðnar grænar í mars-apríl og svo aðrar sem standa til jóla. Þetta er hægt en það þarf mikla tilraunastarfsemi til að það takist.“
Fréttir 29. október 2024
Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar
Slow Food Reykjavík hélt hátíð í garðskála Grasagarðs Reykjavíkur dagana 18. og ...
Fréttir 29. október 2024
Dagur sauðkindarinnar
Þann 12. október síðastliðinn var dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu haldi...
Fréttir 29. október 2024
Nýr formaður Lífeyrissjóðsins
Vala Valtýsdóttir er nýr formaður stjórnar Lífeyrissjóðs bænda. Aukaaðalfundur s...
Fréttir 28. október 2024
Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar
Skipulagsstofnun birti þann 18. október til umsagnar matsáætlun fyrir mat á umhv...
Fréttir 28. október 2024
Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu
Auka þarf innlenda matvælaframleiðslu um 45–55 prósent næstu þrjátíu árin til að...
Fréttir 28. október 2024
Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé
Innleiðing á verndandi og mögulega verndandi arfgerðum gegn riðu í sauðfé gengur...
Fréttir 25. október 2024
Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju
Umsóknum um styrki vegna útiræktunar grænmetis fækkaði um fimm frá fyrra ári.
Fréttir 25. október 2024
Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast
Kennitala Sláturhússins á Hellu hefur verið afskráð og verður reksturinn færður ...
29. október 2024
Nýr formaður Lífeyrissjóðsins
29. október 2024
Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar
29. október 2024
Fjölmenningarhátíð í Aratungu
29. október 2024