Íslenskir sauðfjárbændur vilja sanngjörn kjör
Unnsteinn Snorri Snorrason, framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda (LS), skrifaði fyrir helgi grein sem birtist á vef samtakanna þar sem settar eru fram kröfur um að afurðaverð til bænda fyrir dilkakjöt verði hækkað um 132 krónur á kílóið frá reiknuðu meðalverði á síðasta ári. Í greininni kemur fram að frá árinu 2016 hefur almennt verðlag á Íslandi hækkað um 12,7 prósent en smásöluverð á lambakjöti um 2,7 prósent.
Miðað kröfur LS myndi afurðaverð fyrir dilkakjöt verða 600 krónur að meðaltali á kílóið, þegar teknar eru inn allar þær viðbótargreiðslur sem skiluðu sér síðar úr sláturtíðinni á síðasta ári. Þessar kröfur eru samhljóða því viðmiðunarverði sem LS gaf út um miðjan júlí.
Lægst greitt fyrir afurðir íslenskra sauðfjárbænda
Í grein Unnsteins er afurðaverð fyrir íslenskar sauðfjárafurðir borið saman við þau kjör sem öðrum evrópskum sauðfjárbændum stendur til boða. Í þeim samanburði kemur í ljós að í krónum talið fá íslenskir sauðfjárbændur lægst greitt, 468 krónur á kílóið, en rúmenskir sauðfjárbændur fá næst lægst greitt, eða 479 krónur á kílóið. Samkvæmt upplýsingum LS, sem fengnar eru úr gögnum Evrópusambandsins, er hæst greitt fyrir afurðir franskra sauðfjárbænda, eða 1.035 krónur á kílóið.
Í greininni kemur fram að íslenskir sauðfjárbændur vilji sanngjörn viðskipti. Þar kemur fram að hlutur bænda af smásöluverði á Íslandi er mun lægri í samanburði við það sem bændur í nágrannalöndunum bera úr býtum. Samkvæmt útreikningum LS, sem byggir á verðlíkani sem samtökin hafa þróað, fá íslenskir sauðfjárbændur 37 prósent af smásöluverðinu en í nágrannalöndunum er hlutfallið á bilinu 45-50 prósent. Ef hlutur íslenskra sauðfjárbænda af smásöluverðinu væri 47 prósent, myndi afurðaverð til bænda vera 607 krónur á kílóið – ef miðað er við að smásöluverð á heilum skrokki sé 1.264 krónur á kílóið.