Kokkalandsliðið fékk gull, silfur og brons á Ólympíuleikunum
Rétt í þessu var tilkynnt um úrslit á Ólympíuleikunum kokkalandsliða sem haldnir voru í í Erfurt í Þýskalandi dagana 22.-25. október. Íslenska liðið fékk silfurverðlaun fyrir heitu réttina í gærkvöldi, en hafði áður fengið gullverðlaun fyrir eftirrétti og brons fyrir kalda rétti. Ísland náði bestum árangri í eftirréttum og lenti í þriðja sæti á heildarlistanum.
Gull-, silfur- og bronsverðlaun segja ekki til um nákvæma röð liða, heldur þann gæðaflokk sem réttirnir eru flokkaðir í.
Singapore varð Ólympíumeistari með flest samanlögð stig, Finnland varð í öðru sæti og Sviss í því þriðja.
Garðar Kári Garðarsson og María Shramko með verðlaunin fyrir eftirréttina.
Í tilkynningu frá kokkalandsliðinu segir Þráinn Freyr Vigfússon þjálfari liðsins að ánægja sé með árangurinn. „Liðið stóð sig vel í keppninni í gær og silfurverðlaunin staðfesta að við erum með mjög sterkt og vel æft lið sem vinnur vel saman. Við höfum lagt áherslu á að nota hágæða íslenskt hráefni. Þetta hefur fallið vel í kramið hjá dómurunum. Í dómgæslunni er ekki bara bragð, útlit, samsetning og hráefnisval metið heldur er einnig tekið mið af fagmennsku við undirbúning og hvernig liðið vinnur saman að matargerðinni í keppniseldhúsinu. Í þeim þáttum stóð liðið sig einnig vel.
Það er mikilvægt fyrir Kokkalandsliðið að hafa öfluga aðila sem styðja við bakið á okkur og erum við þakklát öllum bakhjörlunum og samstarfsaðilunum sem lögðu sitt af mörkum til að við gætum tekið þátt í keppninni. Við erum að keppa við fjölmennar þjóðir sem leggja mikið undir og því er árangurinn sem við náðum enn eftirtektarverðari. Þessi glæsilegi árangur liðsins gefur okkur möguleika á að efla liðið enn frekar fyrir næstu keppnisþátttöku.“
Í Kokkalandsliðinu eru: Hafliði Halldórsson framkvæmdastjóri liðsins, Þráinn Freyr Vigfússon þjálfari, Bjarni Siguróli Jakobsson fyrirliði, Björn Bragi Bragason forseti KM/framkvæmdastjórn, Steinn Óskar Sigurðsson liðsstjóri, Jóhannes Steinn Jóhannsesson liðsstjóri, Fannar Vernharðsson, Ylfa Helgadóttir, Hafsteinn Ólafsson, Axel Clausen, Garðar Kári Garðarsson, Hrafnkell Sigríðarson, Atli Þór Erlendsson, Sigurður Ágústsson, Georg Arnar Halldórsson og María Shramko.