Kortlagning óbyggðra víðerna fest í náttúruverndarlög
Alþingi samþykkti í vikunni frumvarp - og auðlindaráðherra um breytingu á náttúruverndarlögum. Mælt var fyrir frumvarpinu í nóvember á síðasta ári.
Lögin heimila ráðherra að setja reglugerð um kortlagningu óbyggðra víðerna, en slík kortlagning á að vera til upplýsinga fyrir stjórnvöld við stefnumótun um verndun landslags og aðra landnotkun. Drög að greiningu víðerna á hálendinu liggja þegar fyrir og rétt þykir að kortleggja með sama hætti óbyggð víðerni annars staðar á landinu. Með því verður til heildstætt yfirlit yfir óbyggð víðerni á Íslandi, sem mun auðvelda alla vinnu við skipulagslegar ákvarðanir sveitarstjórna, svo sem gerð og breytingu á skipulagsáætlunum sveitarfélaga, gerð vegaskrár og ákvarðanir um landnotkun.
Lögunum er enn fremur ætlað að stytta kynningartíma áforma um friðlýsingu og umsagnartíma um drög að friðlýsingarskilmálum til þess að gera friðlýsingarferlið skilvirkara.
Þá er í lögunum kveðið á um að undanþáguheimild frá ákvæðum friðlýsinga verði færð frá ráðherra til Umhverfisstofnunar sem og heimild til að veita undanþágu við banni við akstri utan vega. Með því að færa ákvarðanir um undanþágur frá ráðherra til stofnunarinnar er tryggt að hægt verði að fá ákvörðunina endurskoðaða á stjórnsýslustigi eins og kveðið er á um í Árósasamningnum.