Landssamtök sauðfjárbænda sameinast Bændasamtökum Íslands
Á aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda (LS), sem haldinn var með fjarfundarfyrirkomulagi 19. – 20. apríl, var samþykkt að sameinast Bændasamtökum Íslands og tekur sameiningin gildi 1. júlí næstkomandi. Var tillaga um sameiningu samþykkt með 37 atkvæðum gegn tveimur mótatkvæðum. Tveir fulltrúar sátu hjá. LS verður þó ekki slitið.
Á vef LS er markmið sameiningarinnar sagt vera að ná fram aukinni skilvirkni og eflingu hagsmunagæslu fyrir íslenskan landbúnað. Sjóðir og eignir LS munu áfram verða í eigu samtakanna en öll starfsemi færist undir búgreinadeild sauðfjárbænda innan Bændasamtaka Íslands.
Á fundinum var boðað til framhaldsaðalfundar með dagskrá þegar samkomutakmarkanir leyfa slíkt. Þar er ætlunin að ganga frá breytingum á samþykktum vegna fyrirhugaðra breytinga og ljúka almennum aðalfundastörfum.