Langflestir íslenskir kjósendur vilja íslenskt kjöt fremur en erlent
Þrátt fyrir harðan áróður hagsmunaaðila í innflutningi um nauðsyn þess að auka innflutning á „ódýru“ kjöti, þá vill mikill meirihluti íslenskra neytenda fremur íslenskt kjöt en erlent samkvæmt nýrri könnun Gallup. Þetta er líka þrátt fyrir fullyrðingar um að með auknum innflutningi sé fyrst og fremst verið að hugsa um vilja og hag neytenda.
Í könnuninni kemur greinilega fram að uppruni landbúnaðarafurða skiptir neytendur afar miklu máli. Þannig svara 82,2% því í könnuninni að þeir velji eingöngu, mun frekar eða frekar íslenskt kjöt en erlent þegar verslað er. Úrtakið var 1.439 manns af öllu landinu, 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup. Þá voru 16,5% hlutlausir eða alveg sama, en einungis 1,2% völdu frekar eða eingöngu erlent kjöt.
Þetta jákvæða viðhorf til íslenskrar matvælaframleiðslu endurspeglaðist svo enn frekar þegar spurt var; „Hversu miklu eða litlu máli skiptir það þig að upplýsingar um uppruna kjöts séu á umbúðum þess?“ Þar svöruð 88,3% því að það skipti öllu, mjög miklu eða frekar miklu máli að upplýsingar um uppruna séu á umbúðunum. Þar fannst 7,2% það ekki skipta máli og einungis 4,5% fannst það skipta litlu eða engu máli.
Kjósendur Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata líklegastir til að kaupa erlent kjöt
Þegar svör voru greind niður í afstöðu fólks til hvaða flokk það sé líklegt til að kjósa í næstu kosningum mátti sjá áhugaverðar bendingar.
Þar kom m.a. fram að fleiri kjósendur Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar voru líklegir til að velja erlent kjöt fremur en íslenskt en kjósendur í öðrum flokkum. Það hlutfall er þó mjög lítið, eða frá 2–4%. Athygli vekur þó að meðal væntanlegra kjósenda Samfylkingarinnar er 32% alveg sama hvort þeir kaupa íslenskt eða erlent kjöt.
Þrátt fyrir þetta sagðist mikill meirihluti væntanlegra kjósenda þessara þriggja flokka eingöngu, mun frekar eða frekar velja íslenskt kjöt en erlent.
Í hópi kjósenda Viðreisnar voru þó fæstir gallharðir á því að velja eingöngu íslenskt, eða 12%. Samsvarandi tala fyrir kjósendur Pírata var 14% og 21% hjá kjósendum Samfylkingar. Staðfastir kjósendur Vinstri grænna í að velja eingöngu íslenskt kjöt voru 31%, en hjá Sjálfstæðisflokki voru þeir 33% og 65% hjá væntanlegum kjósendum Framsóknarflokks.
Upprunamerkingar skipta kjósendur mjög miklu máli
Þegar svör voru greind niður í afstöðu fólks til upprunamerkingar flokka í væntanlegum alþingiskosningum, þá var hæsta hlutfallið úr hópi væntanlegra kjósenda Viðreisnar sem stóð á sama. Eigi að síður fannst meirihluta væntanlegra kjósenda þess flokks, eða 79%, að merkingar um uppruna skipti öllu, mjög eða frekar miklu máli.
Kjósendur Pírata 2013 minna hliðhollir upprunamerkingum en aðrir
Þegar svarendur voru greindir eftir því hvaða flokk þeir sögðust hafa kosið í síðustu alþingiskosningum 2013, voru kjósendur Pírata með lægsta hlutfallið hvað varðar kröfu um upprunamerkingar. Samt töldu 58% kjósenda þess flokks að upprunamerkingar skiptu öllu, mjög, eða frekar miklu máli.
Kjósendur VG ákafastir um mikilvægi upprunamerkinga
Kjósendur Vinstri grænna í síðustu kosningum voru mest afgerandi í afstöðu sinni til upprunamerkinga á kjöti. Af þeim töldu 97% að merkingar um uppruna skipti öllu, mjög eða frekar miklu máli. Þá voru 88% væntanlegra kjósenda flokksins á sama máli.
Afstaða kjósenda Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins í síðustu kosningum til upprunamerkinga var litlu lægri en kjósenda VG, eða 90 og 91%, en 86% hjá kjósendum Sjálfstæðisflokks. Þá töldu 97% þeirra sem kusu aðra flokka að merkingar um uppruna skipti öllu, mjög eða frekar miklu máli.