Langtíma fjárfesting í matvælaframleiðslu og frumkvöðlastarfi
Woody Tasch, stofnandi Slow Money-hreyfingarinnar, hélt fyrirlestur hér á landi fyrir skömmu þar sem hann kynnti hugmyndir sínar um fjárfestingar í matvælaframleiðslu og stuðning við matarfrumkvöðla.
Slow Money-hreyfingin talar fyrir því að fjármagnseigendur noti minnst 1% af fjármunum sínum til að byggja upp framleiðslu matar með áherslu á heilnæmu hráefni og sjálfbærri þróun. Tasch segir að megin ástæða þess að hann tali um 1% sé að fyrsta prósentið sé yfirleitt það erfiðasta að fá til að leggja fram.
„Að taka ákvörðun um að leggja fé í langtímafjárfestingu og oft lítinn ágóða eins og vill verða í matvælaframleiðslu er mörgum framandi hugsun. Það er því best að byrja smátt.
Slow Money er ekki fjárfestingasjóður, ekki með neina stjórn og tekur ekki þóknun fyrir sitt framlag. Hugmyndin er einfaldlega að fá fólk og fjárfesta til að leggja sjálft fé til staðbundinnar matvælaframleiðslu milliliðalaust. Yfirleitt er um að ræða lán á lágum eða jafnvel engum vöxtum til langs tíma sem gerir litlum framleiðendum kleift að hefja framleiðslu, auka við tækjabúnað, kaupa land eða að gera frumkvöðlum kleift að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. Á Íslandi gætu lán af þessu tagi einnig átt við um minni sjávarútvegsfyrirtæki og trillusjómenn.“
Menningararfleifð og uppbygging nærsamfélaga
Tasch sagði í samtali við Bændablaðið að hugmyndin að baki Slow Money sé að hluta til byggð á Slow Food-hreyfingunni. Bakgrunnur Tasch er í fjármálageiranum og hann var eigandi og sá um rekstur fjárfestingasjóðs á níunda áratug síðustu aldar en gjaldkeri fyrir umhverfisverndarsamtök í New York á þeim tíunda. Hann segist lengi hafa haft áhuga á langtímafjárfestingum og áhrifum þeirra á samfélagið.
„Aldamótaárið 2000 heimsótti ég höfuðstöðvar Slow Food á Ítalíu og varð mjög hrifinn af þeirra hugmyndafræði. Í kjölfarið fór ég að velta fyrir mér af hverju ekki væri hægt að hugsa um peninga á sama hátt. Þolinmótt fjármagn sem hægt er að nota til að styrkja og efla staðbundna matvælaframleiðslu og um leið nærsamfélagið.“
Árið 2008 sendi Tasch frá sér bók sem kallast Inquiries into the Nature of Slow Money: Investing as If Food, Farms and Fertility Mattered og fjallar um hugmyndina að baki Slow Money.
„Með slíkri fjárfestingu, hvort sem hún er í landbúnaði, heimavinnslu eða lítilli útgerð, er jafnframt verið að hlúa að menningararfleifð, heilsu neytenda og uppbyggingu nærsamfélaga.“
Þess má geta að að Slow Money var valið ein af fimm markverðustu stefnum í fjárfestingageiranum af www. entrepreneur.com sem er heimasíða sem leggur áherslu á frumkvöðlastarf.
Slow Money víða um heim
„Á þeim átta árum sem liðin eru frá fyrstu fjárfestingunni í anda Slow Money hafa fjárfestar í Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu, Sviss, Belgíu og Frakklandi beint ríflega 57 milljónum bandaríkjadala í 600 fyrirtæki í landbúnaði eins og mjólkur- og korniðnaði, í lífrænni og staðbundinni framleiðslu og í veitingarekstri,“ segir Tasch.
Innlend framleiðsla mikilvæg
Tasch segir áhugavert hversu mikið af þeim matvælum, kjöti og fiski, sem Íslendingar neyta, sé innlend framleiðsla. „Í Bandaríkjunum og víðar um heim er staðbundin matvælaframleiðsla aðeins lítill hluti af þeim mat sem fólk borðar og sérstaða Íslands því mikil og eitthvað sem er mjög dýrmætt. Vitund fólks fyrir uppruna fæðunnar er sífellt að aukast. Fólk vill í auknum mæli vita hvaðan maturinn kemur og hver framleiðir hann.“
Það var frumkvöðlafyrirtækið Spor í sandinn, í samvinnu við Matarauð Íslands, Slow Food Reykjavík, Sólheima, Flow Meditation, Sjávarklasann, Icelandic Startups og fleirum sem stóðu fyrir komu Tasch til landsins.
Að sögn Hjördísar Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra Spor í sandi, er talsverður áhugi fyrir stofnun Slow Money hreyfingar á Íslandi sem stuðlað gæti að uppbyggingu staðbundins matarauðs og aðstoð við matarfrumkvöðla.