Mast vill sýni
Drepist kind heima á bæ, finnist dauð eða er lógað vegna vanþrifa, sjúkdóms eða slyss, óskar Matvælastofnun eftir því að sauðfjáreigendur hafi samband við héraðsdýralækni sinn sem mun sjá til þess að sýnin séu tekin eða leiðbeinir við að senda hausa beint á Keldur. Sýnatökurnar og sendingarkostnaður verður í öllu falli sauðfjáreigendum að kostnaðarlausu.
Matvælastofnun hefur það hlutverk að hafa eftirlit með riðuveiki í sauðfé. Meiri líkur eru taldar á að finna riðu í sýnum úr fé sem hefur drepist eða verið lógað heima á búum en í sýnum teknum í sláturhúsum. Þau hafa því meira gildi fyrir leit að riðutilfellum og auka þar með líkur á að útrýming riðuveiki takist.
Því leggur stofnunin áherslu á söfnun þessara mikilvægu sýna og óskar í því tilliti eftir samstarfi við sauðfjáreigendur.