Matvælaframleiðslan á Íslandi stendur undir stórum hluta af fæðuframboði Íslendinga
Í morgun kynnti Jóhannes Sveinbjörnsson, dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands, niðurstöður skýrslu um fæðuöryggi á Íslandi sem unnin var fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þar kom fram að hlutfall innlendrar framleiðsla á kjöti, eggjum og mjólkurvörum, er langt umfram innlenda eftirspurn eftir slíkum vörum, en í grænmetisframleiðslu er hlutdeildin 43 prósent og aðeins eitt prósent í kornvörum til manneldis.
Í skýrslunni er fjallað um innlenda matvælaframleiðslu og hugtakið „fæðuöryggi“ sett í samhengi við hana – og mat lagt á áhrifin sem yrðu á framleiðsluna ef skortur yrði á aðföngum sem nauðsynleg eru fyrir framleiðsluna.
Fæðuöryggi hefur verið skilgreint af FAO (Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna) þannig, að það sé til staðar þegar allt fólk hefur ávallt raunverulegan og efnahagslegan aðgang að nægum, öruggum og næringarríkum matvælum til að uppfylla næringarþarfir sínar með frjálsu fæðuvali, til aðgeta lifað virku og heilssamlegu lífi.
Mynd / smh
Auka má hlutdeild innlendrar kornvöru
Í skýrslunni kemur fram að innlend matvælaframleiðsla stendur fyrir stórum hluta fæðuframboðs á Íslandi og þá sérstaklega próteini. Sem fyrr segir sér garðyrkjan fyrir um 43 prósentum af framboði grænmetis, en búfjárræktin um 90 prósentum af kjöti, 96 prósentum af eggjum og 99 prósentum af mjólkurvörum. Framboð á fiski á Íslandi er langt umfram innlenda eftirspurn.
Innlend framleiðsla á korni til manneldis er einungis um eitt prósent af fæðuframboði á Íslandi. Skýrsluhöfundar telja hins vegar að það liggi tækifæri í því að efla framleiðslu á korni, bæði sem fóður fyrir búfé og til manneldis. Einnig séu tækifæri í því að efla útiræktun grænmetis.
Til að tryggja að það land sem hentugast sé undir ræktun tapist ekki undir aðra starfsemi þurfi hins vegar að liggja fyrir skýr stefna um landnotkun og flokkun landbúnaðarlands.
Hægt að vinna að aukinni sjálfbærni með ýmsu móti
Varðandi aðföng telja skýrsluhöfundar að innlend matvælaframleiðsla sé mjög háð innflutningi á þeim og þá sérstaklega eldsneyti og áburði en einnig fóðri, sáðvöru, tækjum og rekstrarvörum til framleiðslunnar. Eðli og umfang innflutnings aðfanga er misjafnt eftir greinum og því myndi skortur á aðföngum hafa mismikil áhrif á framleiðsluna. Staða einstakra greina er metin í skýrslunni.
Með viðeigandi ráðstöfunum varðandi birgðahald á aðföngum sé hægt að tryggja meirihluta innlendrar framleiðslu í einhvern tíma, sem er mismunandi eftir framleiðslugreinum. „Að aukinni sjálfbærni í fæðuframleiðslu til lengri tíma er líka hægt að vinna með ýmsu móti. Þar ber einna hæst orkuskipti þar sem aukin áhersla væri á innlenda orkugjafa (rafmagn, jarðhita), á kostnað innflutts jarðefnaeldsneytis. Sömuleiðis væri hægt að draga úr þörf á innflutningi tilbúins áburðar með aukinni endurnýtingu næringarefna bæði frá heimilum og fyrirtækjum. Með framförum í orkumálum og nýtingu næringarefna væri einnig hægara um vik varðandi aukna sjálfbærni í fóðurframleiðslu. Til þess þarf þó einnig að halda áfram góðu starfi í plöntukynbótum, jarðræktartækni og fleiri greinum búvísinda,“ segir í skýrslunni.
Í skýrslunni kemur fram að mikilvægt sé að marka stefnu um hvernig tryggja megi fæðuöryggi þjóðarinnar. „Í því felst að sett séu markmið um getu innlendrar matvælaframleiðslu til að takast á við skyndilegar breytingar á aðgengi að innfluttri matvöru og aðföngum þannig að fæðuöryggi þjóðarinnar sé tryggt,“ segir í skýrslunni.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir í tilefni útgáfunnar að niðurstöðurnar sýni vel hvað innlend matvælaframleiðsla stendur sterkt og hvað hún er mikilvæg stoð enda standi hún undir stórfum hluta fæðuframboðs á Íslandi. „Um leið sýnir skýrslan fram á þau tækifæri sem blasa við að gera enn betur, m.a. í því að efla framleiðslu á korni innlendri áburðarframleiðslu. Um leið sýnir skýrslan fram á mikilvægi þess að móta stefnu um hvernig tryggja megi fæðuöryggi þjóðarinnar. Með slíkri stefnu þarf að setja markmið um getu innlendrar matvælaframleiðslu til að takast á við skyndilegar breytingar á aðgengi að innfluttri matvöru og aðföngum til að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar,” segir Kristján Þór.
Skýrslan er aðgengileg í gegnum tengilinn hér að neðan: