Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Matvælastofnun
Leiðari 25. ágúst 2023

Matvælastofnun

Höfundur: Sigurður Már Harðarson, starfandi ritstjóri

Seglbúðir, litla sláturhúsið í Landbrotinu, hefur tilkynnt að ekki verði slátrað þar í næstu sláturtíð.

Sigurður Már Harðarson

Ástæðan er meðal annars fyrirhugaðar gjaldskrárhækkanir Matvælastofnunar vegna þjónustu dýralækna í sláturhúsum.

Í umsögn eigenda Seglbúða um drög að nýrri og endurskoðaðri gjaldskrá kemur fram að um 800 prósenta verðhækkun á þessum lið sláturkostnaðar verði að ræða hjá þeim. Ekkert tillit sé tekið til fyrirtækja með litla framleiðslu eða þarfa fyrirtækja sem líða fyrir landfræðilegar takmarkanir.

Bændurnir segjast engin viðbrögð hafa fengið við umsögn sinni, en sláturtíðin nálgast nú óðfluga.

Tilkynningin var birt á Facebook-síðu Seglbúða og í athugasemdum um færsluna er Matvælastofnun ausin óhróðri.

Stofnunin hefur um langt skeið átt undir högg að sækja ímyndarlega gagnvart bændum – manni finnst eins og það hafi verið þannig nánast alla tíð.

Hún varð til í byrjun árs 2008 við sameiningu Landbúnaðarstofnunar, matvælasviðs Umhverfisstofnunar og matvælasviðs Fiskistofu.

Ég hóf störf við landbúnaðarblaðamennsku litlu síðar. Við höfum því lengi fylgst að í verkefnum okkar.

Oft hefur stofnunin orðið fyrir óvæginni gagnrýni, til dæmis þegar beinir hagsmunir eru í húfi eða í tilfinningaþrungnum málum. Nýleg slík dæmi eru af málum sem snerta dýravelferð og riðuveiki í sauðfé.

Eðli starfsemi Matvælastofnunar er auðvitað með þeim hætti að næstum óhjákvæmilegt er að hún baki sér ítrekað óvild meðal bænda, dýravina og matvælaframleiðenda.

Hún lútir jú líka að vissu leyti boðvaldi sameiginlegrar evrópskrar löggjafar sem mörgum finnst að ekki passi alltaf vel inn í íslenskan veruleika.

Þó held ég að það sé hollt fyrir alla málefnalega umræðu að stofnunin fái að njóta vafans í erfiðum málum, þegar málavextir eru að einhverju leyti óljósir.

Í skýrslu Dýraverndarsambands Íslands, Bætt dýravelferð – Staða og tillögur til úrbóta, sem kom út fyrr á þessu ári, kemur fram að framlag ríkisins til stofnunarinnar árið 2022 hafi verið mun lægra en á fjórum árum þar á undan, miðað við fast verðlag.

Það gefur tilefni til að ætla að Matvælastofnun hafi verið vanfjármögnuð að einhverju leyti á síðustu árum, til að geta sinnt sómasamlega öllum þeim málaflokkum sem henni er skylt að sinna – og þeim hefur farið fjölgandi.

En mörgu er hægt að breyta og margt er hægt að bæta – hjá Matvælastofnun eins og hjá flestum öðrum – án þess að fjármunir komi þar við sögu.

Lengi vel voru samskipti mín sem blaðamanns við stofnunina nokkuð stirð á köflum. Lengst af var starfandi upplýsingafulltrúi hjá stofnuninni sem öll samskipti fjölmiðlafólks áttu að fara í gegnum. Fyrir fáeinum árum var það fyrirkomulag aflagt um leið og staðan var lögð niður.

Nú eru samskiptin skilvirkari og ég hrósa starfsmönnum fyrir að nú heyrir það nánast til undantekninga ef viðbrögð við fyrirspurnum berast ekki fljótlega, þó það geti enn tekið drjúgan tíma að fá þær upplýsingar sem sóst er eftir.

Fyrir vinnslu á frétt í þessu blaði tók 13 daga að fá endanlegar upplýsingar um mál sem snerti innflutning á kjúklingi frá Úkraínu. Svörin sem bárust á þeim tíma voru nokkur en misvísandi. Betra væri að slíkar mikilvægar upplýsingar um matvælaöryggi væru ekki svo torsóttar, nú á tímum stafrænnar upplýsingamiðlunar.

Hjartað slær með náttúruvernd
Fréttir 18. febrúar 2025

Hjartað slær með náttúruvernd

Sigrún Ágústsdóttir er forstjóri nýrrar Náttúruverndarstofnunar sem tók til star...

Á hverfanda hveli
Fréttir 18. febrúar 2025

Á hverfanda hveli

Árið í ár er helgað hverfandi jöklum. Íslenskir jöklar minnkuðu um 900 km2 milli...

Stöðugur samdráttur í hrossaútflutningi
Fréttir 17. febrúar 2025

Stöðugur samdráttur í hrossaútflutningi

Frá árinu 2022 hefur samdráttur verið stöðugur í útflutningi íslenskra hrossa.

Samráð um úrgangsforvarnir
Fréttir 14. febrúar 2025

Samráð um úrgangsforvarnir

Í Samráðsgátt stjórnvalda liggja nú drög Umhverfisstofnunar að stefnu um úrgangs...

Sóknarhugur er í Dalamönnum
Fréttir 14. febrúar 2025

Sóknarhugur er í Dalamönnum

Í Búðardal er fyrirhugað að reisa atvinnuhúsnæði með allt að 150 milljóna króna ...

Náttúrulegir birkiskógar hafa mikilvægt hlutverk
Fréttir 13. febrúar 2025

Náttúrulegir birkiskógar hafa mikilvægt hlutverk

Vísbendingar eru um að náttúrulegir birkiskógar hafi mikil áhrif á uppsöfnun kol...

Sjö verkefni um aukið virði sauðfjárafurða
Fréttir 13. febrúar 2025

Sjö verkefni um aukið virði sauðfjárafurða

Kennslutól fyrir skólabörn, vöruþróun ærkjöts og sauðaosta og markaðssetning á s...

Kjötafurðastöðvar aftur undir samkeppnislög
Fréttir 12. febrúar 2025

Kjötafurðastöðvar aftur undir samkeppnislög

Þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar hefur verið kynnt fyrir vorþingið. Landbúnaðarmá...