Kjötafurðastöðvar aftur undir samkeppnislög
Þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar hefur verið kynnt fyrir vorþingið. Landbúnaðarmál eru lítt áberandi en þar má þó sjá að stjórnvöld ætla að færa kjötafurðastöðvar aftur undir samkeppnislög og breyta þeim búvörulögum sem samþykkt voru á vorþingi 2024.
Í þingmálaskránni kemur fram að atvinnuvegaráðherra hyggist stefna á að leggja fram frumvarp í þessum mánuði til breytinga á búvörulögum og fella úr gildi ákvæði um undanþágur framleiðendafélaga frá ákvæðum samkeppnislaga.
Breytingar á ýmsum lögum um dýrasjúkdóma
Í febrúar ætlar atvinnuvegaráðherra að leggja fram frumvarp um breytingu á jarðalögum, sem efnislega er samhljóða frumvarpi fyrri ríkisstjórnar sem áætlað var að leggja fram í október og snýr að því meðal annars að skýra forkaupsrétt sameigenda jarða.
Loks stefnir atvinnuvegaráðherra að því að leggja fram frumvarp í mars um breytingu á ýmsum lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.
Meðal annars til að ná fram markmiðum sem koma fram í nýrri landsáætlun um breytta nálgun vegna útrýmingar á riðuveiki og nauðsynlegra breytinga vegna annarra smitsjúkdóma í búfénaði.
Tollflokkun á osti með viðbættri jurtafitu
Fjármála- og efnahagsráðherra ætlar í mars að ráðast í breytingar á ákvæðum tollalaga við þegar gerðar breytingar á búvörulögum. Þar verða lagðar til breytingar á tollskrá, sem sé viðauki við tollalög, varðandi tollflokkun á osti með viðbættri jurtafitu.
Ekki er frekar útskýrt hvað felst í fyrirhuguðum breytingum á tollskrá varðandi tollflokkun á osti með viðbættri jurtafitu. Það má hins vegar minna á að svonefndur „jurtaostur“ var flokkaður í tollflokk sem bar engan toll hjá innflytjendum og talsvert magn var flutt inn af slíkum vörum. Tollgæslustjóri komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að vöruna bæri að flokka sem ost og greiða af henni gjöld.
Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur Mjólkursamsölunnar, segir að textinn í þingmálaskránni sé ekki mjög upplýsandi en það liggi beint við að draga þá ályktun að þarna undir sé tollflokkun á rifnum pitsaosti sem tekist hefur verið á um fyrir íslenskum dómstólum. Sé það raunin sé um stórt hagsmunamál að ræða fyrir íslenska mjólkurframleiðendur enda gæti innflutningsmagnið samsvarað 3–4 milljón lítra mjólkurframleiðslu á ári, sem svari til framleiðslu 6–8 kúabúa.

Raforkuöryggi fyrir heimili og smærri fyrirtæki
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra leggur fram frumvarp í febrúar um breytingu á raforkulögum og er það endurflutt með breytingum. Með frumvarpinu er vernd almennra notenda á raforku aukin, eins og heimila og smærri fyrirtækja. Lagt er til að grunnsjónarmið sem byggja skuli á við skömmtun verði færð í lög og mælt er fyrir um öflun og greiningu upplýsinga í þeim tilgangi að leggja mat á stöðu á raforkumarkaði.
Í frumvarpinu felast ráðstafanir til að nýta sveigjanleika í raforkukerfinu með því að skapa hvata til breytinga á raforkunotkun notenda miðað við aðstæður í raforkukerfinu hverju sinni. Endurflutt með breytingum.