Samráð um úrgangsforvarnir
Í Samráðsgátt stjórnvalda liggja nú drög Umhverfisstofnunar að stefnu um úrgangsforvarnir.
Um grænbók er að ræða sem heitir Saman gegn sóun – Stöðumat og valkostir í úrgangsforvörnum. Í henni er greining á þessu tiltekna viðfangsefni sem stjórnvöld hafa ákveðið að skoða nánar í samráði við almenning og hagaðila áður en gefin er út stefna.
Lykilhlutverk í hringrásarhagkerfinu
Í inngangi grænbókarinnar segir að úrgangsforvarnir gegni lykilhlutverki í hringrásarhagkerfinu. Þær séu meðal skilvirkustu leiða til að bæta auðlindanýtingu og draga úr skaðlegum umhverfisáhrifum vegna úrgangs.
Árið 2016 var fyrsta stefnan um úrgangsforvarnir á Íslandi gefin út undir nafninu „Saman gegn sóun“. Á haustmánuðum árið 2023 tók umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra ákvörðun um að endurskoða stefnuna. Sú vinna hófst í byrjun árs 2024.
Í grænbókinni er farið yfir tilefni endurskoðunar á stefnu í úrgangsforvörnum. Þau eru meðal annars stefnan „Í átt að hringrásarhagkerfi“, sem umhverfis- og auðlindaráðherra gaf út árið 2021 um úrgangsmál, heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og stefna Íslands um sjálfbæra þróun til ársins 2030 og aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Í þeim málum hefur Ísland skuldbundið sig til að taka þátt í sameiginlegu markmiði Evrópusambandsins, Íslands og Noregs um 55 prósent samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030, miðað við árið 1990.
Greining á núverandi stöðu
Í grænbókinni er að finna greiningu á núverandi stöðu málaflokksins. Þar á meðal samantekt á tölfræði sem til er um úrgangsforvarnir og úrgangsmál á Íslandi og hún sett í samhengi við stöðuna í öðrum löndum.
Í kaflanum um framtíðarsýn, áherslur og valkosti til umræðu, eru lagðar fram mögulegar leiðir að nýrri stefnu. Vitnað er til stefnu ráðherra í úrgangsmálum, Í átt að hringrásarhagkerfi, þar sem segir að „Ísland verði meðal leiðandi þjóða í loftslagsmálum og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir. Í því augnamiði verði komið á virku hringrásarhagkerfi þar sem dregið verði verulega úr myndun úrgangs, endurvinnsla aukin og urðun hætt.“ Segir í kaflanum að stefna í úrgangsforvörnum falli undir þessa framtíðarsýn.
Betri nýting á búfjáráburði og rúlluplasti
Umsagnartímabilinu um grænbókina í Samráðsgátt lauk 13. janúar. Það var í opnu samráðsferli en 32 aðilar fengu boð um þátttöku. Tíu umsagnir bárust og þar á meðal frá Bændasamtökum Íslands og Samtökum fyrirtækja í landbúnaði (SAFL).
Bændasamtökin segja í sinni umsögn að með hagnýtingu aðferðafræði hringrásarhagkerfisins og öflugri nýsköpun sé bæði hægt að draga úr sóun og auka samhliða framleiðsluverðmæti í landbúnaði með slíkri áframvinnslu. Slíkar lausnir hafa jákvæð áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda og tækifæri felast í því að skapa samhliða fleiri græn störf í sveitum landsins. Nefna samtökin tvö verkefni sem þau hafi haft aðkomu að í endurvinnslu úrgangs frá landbúnaði. Annað felst í betri nýtingu á laxeldisseyru og búfjáráburði til frekari verðmætasköpunar og hitt snýr að söfnun og endurvinnslu rúlluplasts en um 2.000 tonn falla til af því árlega. Í umsögninni segir að þrátt fyrir þessi verkefni skorti jákvæða hvata af hálfu stjórnvalda til hagnýtingar þessara afurða.
SAFL telur í sinni umsögn ljóst að leita þurfi frekari leiða við ráðstöfun dýraleifa hér á landi til að koma málaflokkunum í ásættanlegt horf, draga úr urðun og auka nýtingu.
Ný stefna gildi til 12 ára
Eftir að unnið hefur verið úr umsögnum verður endanleg útgáfa stöðumatsins gefin út og síðan gerir Umhverfisstofnun drög að nýrri stefnu og aðgerðaáætlun sem lögð verður fyrir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið.
Ráðuneytið birtir lokadrög nýrrar stefnu í Samráðsgátt, áður en hún verður endanlega samþykkt, en stefnt er að því að hún taki gildi á vordögum 2025 og gildi til næstu 12 ára.