Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Þröstur Heiðar Erlingsson og Ragnheiður Lára Brynjólfsdóttir, bændur í Birkihlíð í Skagafirði, fengu aðstöðu á bás Matís á sýningunni, ásamt fleiri skagfirskum bændum, til að kynna kjötafurðir sem þau framleiða sjálf.
Þröstur Heiðar Erlingsson og Ragnheiður Lára Brynjólfsdóttir, bændur í Birkihlíð í Skagafirði, fengu aðstöðu á bás Matís á sýningunni, ásamt fleiri skagfirskum bændum, til að kynna kjötafurðir sem þau framleiða sjálf.
Mynd / HKr.
Fréttir 18. október 2018

Mjög flott sýning og aðstandendum til sóma

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Þröstur Heiðar Erlingsson og Ragnheiður Lára Brynjólfsdóttir, bændur í Birkihlíð í Skagafirði, kynntu eigin framleiðslu á bás Matís á íslenskum landbúnaði 2018 um síðustu helgi. Þau voru hæstánægð með viðtökurnar. 

 „Þetta er mjög flott sýning og aðstandendum til sóma,“ sagði Þröstur. 

„Við erum hér að kynna nautakjötið okkar, en annars erum við líka að framleiða lambakjöt í okkar heimavinnslu.  Þar erum við að framleiða ýmsar afurðir og berjast við að selja allar okkar afurðir sjálf. Þó látum við sláturhúsið stundum vinna fyrir okkur. Við erum með 160 kindur og rétt um 80 mjólkandi kýr. Þá erum við með nautaeldi, enda látum við alla gripi lifa.“ 

Með mun strangari regluverk en þekkist í okkar nágrannalöndum

Þröstur segir að í Birkihlíð sé kjötvinnsla sem uppfyllir öll lög og reglur. Honum finnst þó reglugerðarsmíðin ganga allt of langt og mun lengra en þekkist í okkar nágrannalöndum. Því hafi þau tekið höndum saman við Matís við að reyna að þoka regluverkinu á skynsamari brautir. 

Þau komust heldur betur í fréttir fyrr í þessum mánuði er þau framkvæmdu heimaslátrun í samstarfi við Matís. Farið var með kjötið á Bændamarkaðinn í Hofsósi þar sem afurðirnar voru seldar í trássi við reglugerðir. Kjötið var síðan innkallað en þess má geta að enginn hefur skilað kjötinu. 

„Það er gert í öllum löndunum í kringum okkur að slátra heima og vinna kjötið í svona kjötvinnslum,“ segir Þröstur. 

Dæmi um jafnvel enn ýktari aðferðir má sjá í grein með myndum af grunnskólabörnum í Noregi að kynna sér heimaslátrun í síðasta Bændablaði. Þar var slátrað inni í fjárhúsi, undir eftirliti dýralæknis, en greinilegt að kröfurnar voru ekki í neinu samræmi við þær sem íslenskir bændur verða að undirgangast. Samt lúta Norðmenn sömu EES  reglugerðum og Íslendingar.

„Þar að auki er mun heitara í þessum löndum en hjá okkur sem gerir vinnsluna viðkvæmari og við búum á eyju og erum laus við ýmsa óværu sem aðrir þurfa að glíma við. Að mínu mati er þessi stífni hér ótrúleg þröngsýni þótt við verðum auðvitað að vera með alla umgjörðina í lagi,“ sagði Þröstur. 

 „Svo má ekki lóga lambi við góðar aðstæður heima við og verka það sjálfur til sölu. Þetta er mjög skrítið, ekki síst þar sem neytendur kalla mjög eftir svona afurðum. Við höfum sterklega orðið vör við það á þessari sýningu, það hefur mikið verið spurt um heimaslátrað kjöt.“

Heimavinnsla lykillinn að bættum hag bænda

Þröstur segir heimavinnslu vera lykilinn að því að bændur geti náð meiri virðisauka af sinni framleiðslu. En það er samt lítið gagn í því að koma sér upp heimavinnslu ef afurðastöðvarnar hækka sífellt heimtökugjaldið og koma þannig í veg fyrir að bændur geti tekið kjötið sitt heim. Þess vegna verðum við að fá aðra leið í sambandi við slátrun. 

„Það er himinn og haf á milli þess sem bóndinn fær fyrir að leggja inn í afurðastöð og þeirrar framleiðslu sem hann getur selt sjálfur. Ég ætla ekki einu sinni að ræða það, svo mikill er munurinn. Þetta getur algjörlega skipt á milli feigs og ófeigs, t.d. í sauðfjárræktinni. Ég tala nú ekki um þá sem búa afskekkt og geta ekki stundað vinnu fyrir utan búið. Þarna gætu þeir klárlega búið sér til margfalt meiri verðmæti ef rýmkað yrði um reglurnar. Það getur hæglega snúist um það hvort menn lifa af í þessari grein eða ekki. 

Við erum ekki að reyna að koma höggi á neinn heldur viljum við bara að bændur hafi eitthvert val fyrir sínar vörur. Milliliðalaus viðskipti, frá bónda til neytenda, það eru óskir neytenda, það skynjum við vel hér á sýningunni. 

Menn hafa tækifærið en er bannað að nota það. Ég held að þetta samstarf okkar við Matís hafi sýnt fram á hvað þetta er galið. Nú er það bara alþingismanna að standa í lappirnar og lagfæra þetta umhverfi.“

Hann segir að sú uppákoma sem átti sér stað við heimaslátrun í Birkihlíð fyrr í mánuðinum hafi einfaldlega verið framkvæmd til að sýna fram á fáránleika regluverksins. 

„Neyðin er bara orðin þannig, t.d. í sauðfjárbúskapnum, að það verður að brjóta lög ef menn ætla að komast af. Neytendur og bændur kalla eftir að regluverkið verði sett upp af skynsemi, en ekki bara fyrir kerfið sjálft,“ segir Þröstur Erlingsson. /HKr.

Sjá nánar á innsíðum nýs Bændablaðs

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði
Fréttir 15. júlí 2024

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði

Matvælaráðuneytið segir í svari við fyrirspurn ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, að sa...

Farsæll áhugaræktandi
Fréttir 15. júlí 2024

Farsæll áhugaræktandi

Þrír synir undan heiðursverðlaunahryssunni Álöfu frá Ketilsstöðum komu fram á La...

Hundrað hesta setningarathöfn
Fréttir 12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn

Setningarathöfn Landsmóts hestasmanna er alla jafna hátíðleg.

Til þess var leikurinn gerður
Fréttir 11. júlí 2024

Til þess var leikurinn gerður

Stjórn Búsældar hefur fyrir sitt leyti samþykkt söluna á Kjarnafæði Norðlenska t...

Skammur aðdragandi að sölunni
Fréttir 11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir hafa sem áður segir samþykkt kauptilboð...

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska
Fréttir 11. júlí 2024

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska

Meginmarkmið kaupa Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á Kjarnafæði Norðlenska (KN) er ...

Tilþrif á Landsmóti
Fréttir 11. júlí 2024

Tilþrif á Landsmóti

Enginn skortur var á glæsilegum tilþrifum stólpafáka sem komu fram í gæðingakepp...

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins
Fréttir 11. júlí 2024

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins

Kaupfélag Skagfirðinga (KS) hefur gert kauptilboð í allt hlutafé Kjarnafæðis Nor...