Nesbú með nýtt lífrænt hænsnahús í Flóanum fyrir 18 þúsund fugla
Nesbú á Vatnsleysuströnd er þessa dagana að taka í notkun nýtt og glæsilegt lífrænt hænsnahús í Flóahreppi þar sem hænurnar gefa frá sér lífræn egg samkvæmt stöðlum frá Vottunarstofunni Túni.
Búið er með annað lífrænt hús á svæðinu í landi Miklholtshellis, en þar eru 12 þúsund lífrænar hænur. Nýja húsið er rúmlega 2000 m2 með vetrargörðunum þar sem mega vera allt að 18.000 fuglar. „Húsið er ætlað í lífræna eggjaframleiðslu og er nokkuð sérstakt vegna þess að það eru sérstakir vetrargarðar í því, sem eru yfirbyggð svæði þar sem fuglinn getur hlaupið um. Auk þess verða útisvæði þar sem fuglinn getur farið út en það er þó bannað í dag vegna fuglaflensu í villtum fuglum á Íslandi. Græni litur hússins á að vísa í lífræna framleiðslu og að allt sé vænt, sem vel er grænt,“ segir Stefán Már Símonarson, framkvæmdastjóri Nesbús.