Neytendur beittir blekkingum
Nú hefur Alþýðusamband Íslands (ASÍ) afsannað fullyrðingar um að lækkun tolla leiði sjálfkrafa til samsvarandi lækkunar vöruverðs á Íslandi.
Tollaafnám, sem fjármálaráðuneytið hafði reiknað með að skilaði 13% verðlækkun til neytenda, gerir það ekki nema að hluta. Verslunin tekur til sín nær helming lækkunarinnar með hækkaðri álagningu.
Miklar umræður hafa einnig verið í fölmiðlum að undanförnu um áhrif tollalækkana á matvöru sem hengt hefur verið við umræðu um nýja búvörusamninga. Hefur Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur Bændasamtaka Íslands, sýnt fram á að þar hafi verið reynt að afvegaleiða umræðuna með því að blekkja neytendur með röngum útreikningum.
Hinn 20. apríl sl. birtist í Fréttablaðinu grein eftir Jóhannes Gunnarsson, formann Neytendasamtakanna, og Guðjón Sigurbjartsson viðskiptafræðing um mögulega lækkun verðs á tilteknum matvælum við afnám tolla. Samkvæmt þeirra útreikningum átti verð til neytenda í flestum tilvikum að lækka mun meira en raunverulegur tollur á vöruna er og jafnvel megnið af innkaupsverði líka. Það þýðir með öðrum orðum að ef tollur yrði aflagður á kjötvörum væru íslenskir kaupmenn að niðurgreiða innfluttar kjötvörur, jafnvel sem nemur margfaldri tollaupphæðinni. Miðað við úttekt ASÍ á áhrifum afnáms tolla á skóm og fatnaði er harla ólíklegt að slíkt muni nokkurn tíma gerast.
Fullyrðingar standast ekki
Þannig átti samkvæmt útreikningum Jóhannesar og Guðjóns kíló af nautakjöti sem kostaði 450 krónur í innkaupi frá útlöndum (cif-verð) og bar 387 krónur í toll, að lækka um heilar 688 krónur til neytenda og allt vegna tollalækkana. Það er 301 krónu meira en nemur tollinum í dag. Kjúklingabringur frá Þýskalandi, sem kosta í innkaupi 598 krónur kg og bera 648 krónur í toll, áttu að mati þeirra félaga að lækka um heilar 1.000 krónur. Nautalund frá Danmörku sem kostar í innkaupi 5.512 krónur kg og ber 658 krónu toll, átti svo að lækka mun meira, eða um heilar 2.652 krónur. Það er rúmlega fjórföld tollaupphæðin, samkvæmt útreikningum Ernu Bjarnadóttur.
Ítrekuð ósannindi matreidd þvert á opinberar tölur Eurostat
Hamrað hefur verið á því að matvælaverð á Íslandi sé miklu hærra en þekkist í öðrum Evrópulöndum. Þess vegna sé nauðsynlegt að afnema verndartolla landbúnaðarins á Íslandi, þótt þeim sé miskunnarlaust beitt í öðrum löndum. Samkvæmt tölum Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, standast þessar fullyrðingar alls ekki. Þar kemur fram að hæsta matvælaverð í Evrópu í desember 2015 var í Noregi. Þá kom Tékkland, Danmörk, Svíþjóð, Finnland, Írland og Austurríki. Ísland var þar í áttunda sæti og auk þess með lægsta matvælaverðið á Norðurlöndum að undanskildu áfengi.
Þar vakti hins vegar athygli að Ísland var í tölum Eurostat með langhæsta verðið af 37 Evrópulöndum á skóm og fatnaði. Samt er því ekki þannig farið að innflutningur þessara vöruflokka sé tollfrjáls í öðrum Evrópuríkjum. Fróðlegt verður því að sjá tölur Eurostat eftir að Ísland felldi niður tolla á skóm og fatnaði um síðastliðin áramót.