Nú má dreifa kjötmjöli og moltu til 1. desember
Leyft verður að dreifa kjötmjöli og moltu til landgræðslu til 1. desember í ár, en ekki 1. nóvember eins og verið hefur, samkvæmt nýrri reglugerð sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur gefið út.
Þannig hefur tíminn verið framlengdur sem má dreifa kjötmjöli og moltu á land sem ætlað er til beitar eða fjölærrar fóðurframleiðslu um einn mánuð, en það verði eftir sem áður friðað til 1. apríl árið eftir.
Í reglugerðinni kemur fram að ekki sé heimilt að bera þessi efni á frosna eða snæviþakta jörð. Þar stendur einnig að umbúðir og fylgiseðlar áburðar úr kjötmjöli og moltu eigi að merkja með eftirfarandi áletrun: „Lífrænn áburður eða jarðvegsbætandi efni – Ef nýta á land til beitar eða fóðurframleiðslu má ekki bera á það moltu eða kjötmjöl síðar en 1. desember árið áður og skal landið þá friðað fyrir beit a.m.k. til 1. apríl. Efnið má plægja niður í flög að vori, sem ætluð eru til nýræktar eða ræktunar einærra fóðurjurta.“