REKO afhendingar í fyrsta skipti á Austurlandi
REKO-viðskiptaformið, sem felst í milliliðalausum viðskiptum framleiðenda og neytenda í gegnum Facebook-síður, breiðist nú hratt út um landið. Á laugardaginn var fyrsta afhending REKO-framleiðenda á Austurlandi til viðskiptavina sinna og fór afhendingin fram á Egilsstöðum.
Facebook-hópar hafa áður verið myndaðir fyrir Reykjavík, Vesturland, sunnanverða Vestfirði, Suðurland og Norðurland – og milliliðalaus viðskipti átt sér stað á þessum svæðum.
Níu framleiðendur buðu fram vörur sínar á Facebook-síðunni fyrir Austurland og yfir 150 pantanir bárust í vörur þeirra, sem þykir með því allra besta á landsvísu. Svo mikill áhugi var raunar að hluti vöruúrvalsins seldist upp hjá helmingi framleiðendanna.
Kaupendur leggja fram pantanir inni í viðburðum hvers hóps á Facebook, greiða fyrirfram og fá það síðan afhent á tilteknum stað og uppgefnum tíma.
Afhendingar verða í þessari viku og um næstu helgi úr hópum REKO Reykjavík (Mjódd), REKO Vesturland (Akranesi), REKO Suðurland (Selfossi) og REKO Norðurland (Blönduósi, Sauðárkróki og Akureyri).
Birta Gunnarsdóttir og Lovísa Rósa Bjarnadóttir, frá HEL og Háhóli geitabúi.