Sæðingar á tímum verndandi arfgerða
Endurmenntun Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) efnir á næstunni til fimm námskeiða um sauðfjársæðingar út um landið.
Um þessar mundir er mikil áhersla á sæðingar verndandi eða mögulega verndandi arfgerða gegn riðuveiki og því mikil tækifæri sögð fólgin í að endurmennta bændur í sauðfjársæðingum með reyndum dýralækni og kennara. Er námskeiði Endurmenntunar LbhÍ um sauðfjársæðingar ætlað að koma til móts við sem flesta starfandi sauðfjárbændur og aðra sem hafa áhuga á að starfa, eða starfa nú þegar, við sauðfjársæðingar.
Í kynningarefni segir að í bóklega hluta námskeiðsins verði farið yfir sögu sauðfjársæðinga, æxlunarfærum sauðkinda lýst og greint frá helstu atriðum varðandi æxlunarlíffræði þeirra. Áhersla verði lögð á að fjalla um sæðingar, hvernig best sé að standa að þeim, hvenær rétti sæðingatíminn er og í hverju samstilling gangmála er fólgin.
Í verklega hlutanum verður meðferð sæðis og verklag við sæðingar kennd í fjárhúsi þar sem einnig á að ræða um smitvarnir. Eiga nemendur að námskeiði loknu að geta sætt ær og sagt til um hvernig bestum árangri verður náð.
Þorsteinn Ólafsson dýralæknir kennir á námskeiðinu en hann hefur áralanga reynslu af að kenna sauðfjársæðingar á vegum Endurmenntunar LbhÍ. Námskeiðin verða haldin í samstarfi við búnaðarsambönd víða um land. Til stendur að halda námskeiðin hjá LbhÍ á Hvanneyri, að Stóra- Ármóti við Selfoss, á Blönduósi, í Búgarði í Eyjafirði og að Ýdölum við Húsavík. Þau fara fram dagana kringum mánaðamótin nóvember/desember nk.